Mín eigin sjálfsræktarbók… Eitt af því sem getur hjálpað okkur að muna og skipuleggja okkar eigin sjálfsrækt er að skrifa niður hvaða áherslur við viljum hafa… og það getur verið mismunandi frá einum tíma til annars hvaða áherslur við setjum… stundum getur hentað og verið þörf fyrir að bæta við líkamlega sjálfsrækt – sem þá getur verið einhvers konar áreynsla, hreyfing, íþróttir – og stundum höfum við þörf fyrir að rækta samskipti okkar og tengsl við aðra – sem getur þá verið í formi faðmlaga, samveru við fjölskyldu og/eða vini – en það sem skiptir mestu máli er að við séum meðvituð um hvað við höfum þörf fyrir á hverjum tíma og setjum það markvisst inná dagskránna… Og það getur verið mjög skemmtilegt að eiga sína eigin „sjálfsræktarbók“ þar sem við punktum niður okkar hugmyndir og hvernig við viljum framkvæma það… sjálf á ég alltaf svona bók… og ég reyndar er mjög hrifin af fallegum „stílabókum“ og yfirleitt nokkrar á lager… og það er mjög gaman að velja nýja þegar ein er búin 😉
Og nú höldum við áfram og erum komin að „I“…
I – ilmur… já nákvæmlega… við getum notað ilm til að næra okkur… það er mjög einfalt að næra sjálfan sig með því að nota ýmis konar ilmi… lavenderilmur er t.d. róandi… piparmyntuilmur getur haft ákveðin hressandi áhrif og sítróungrasilmur… þessir þrír eru það sem ég hef prófað sjálf og vanillukerti eru alltaf til á mínu heimili og vekur góðar tilfinningar hjá öllum heimilismeðlimum 😊
Í – íþróttir… allar tegundir íþrótta geta verið sjálfsrækt og næring og þá skiptir ekki öllu máli hvort henni fylgir mikil áreynsla (sem var undir „Á“ muniði)… heldur að við erum þá að gera eitthvað sem er skemmtilegt… og af því að nú er vetur þá detta mér í hug hlutir eins og að fara á skíði… eða skauta… það getur líka verið eitthvað allt annað… skokka… hlaupa… „fara í ræktina“… gera léttar æfingar heima… eða hvað annað sem okkur kann að detta í hug og hægt er að flokka sem einhvers konar íþrótt 😉
J – jafnvægi… það er nú einmitt það… jafnvægi er í sjálfu sér ekki „aðgerð“ í þeim skilningi að gera eitthvað ákveðið heldur snýst um að passa jafnvægið í lífinu… að lífið sé t.d. ekki bara vinna heldur líka félagslíf, fjölskylda og svo framvegis… og með þetta eins og svo margt annað þá er ekki einhver „ein stærð“ sem hentar öllum og þess vegna þurfum við öll að fikra okkur áfram og finna út hvaða hlutföll af hverju henta fyrir okkur og okkar fjölskyldu.
K – kynlíf og kossar… já það er sjálfsrækt falin í því að kyssast og stunda kynlíf… stundum getur það tekið langan tíma en stundum getur það líka bara tekið mjög stuttan tíma… bara að smella góðum kossi á makann getur verið ótrúlega mikils virði… og ekki bara fyrir okkur sjálf heldur líka makann 😉
L – leikur… hvað er nú það?… það getur verið nákvæmlega það að leika sér, eins og börnin gera 😊 að fara í feluleik með börnunum, setjast niður og lita, fara í kitluleik, nú eða bara fíflast og segja brandara. Þetta er eitt af því sem við gleymum oft og fyrir mig er þetta áskorun því ég get stundum verið upptekin af því að vera nú að gera eitthvað gagnlegt… og nú er ég að reyna að læra að það „að leika sér“ er í raun mjög gagnlegt 😉