Samtalsmeðferð & félagsráðgjöf

Samtalsmeðferð & félagsráðgjöf

Hjá Hugrekki er veitt samtalsmeðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur og geta umræðuefnin verið mismunandi, t.d. samskiptavandi, áfallavinna, uppeldisráðgjöf eða sjálfstyrking. Sérstaklega hefur Ingibjörg sérhæft sig í afleiðingum ofbeldis og úrvinnslu þeirra. Þjónusta Hugrekkis er ávallt notendamiðuð og gengið út frá því að hver einstaklingur sé sérfræðingur í sjálfum sér og eigin lífi.

Meðferðarvinna Hugrekkis byggir á samþættri nálgun, tengslamyndun og heildarsýn – m.a. á hugmyndum um hjálp til sjálfshjálpar og valdeflingu. Hlutverk fagaðila í slíku ferli er að vera einstaklingi til stuðnings á meðan hann finnur þær leiðir sem henta honum vel til að vinna með vandamál sín eða hindranir í lífinu.  Ýmsar leiðir og verkfæri eru til, til að vinna með slíkar hindranir og er það líka hlutverk félagsráðgjafa Hugrekkis að kynna fyrir viðkomandi mismunandi leiðir og það er svo einstaklingsins sjálfs að velja þær sem hann telur henta fyrir sig. Þolandi ofbeldis hefur t.d. lifað af atburði og aðstæður þar sem hann hefur þurft að nota eigin aðferðir til að lifa af og býr þar af leiðandi yfir ýmsum styrkleikum sem hann getur haldið áfram að nýta til að vinna með afleiðingar ofbeldisins.  Þessir styrkleikar eru skoðaðir og aðferðir sem hafa verið gagnlegar áður geta stundum verið gagnlegar áfram á meðan aðrar eru það kannski ekki. Þá er það hlutverk félagsráðgjafans að vera einstaklingi til stuðnings á meðan hann finnur hvort leiðir hans eru gagnlegar eða ekki – og finna nýjar sem nýtast betur þegar það á við.

Einnig eru notaðar áfallamiðaðar aðferðir við úrvinnslu ýmis konar áfalla, m.a. TRM (Trauma Resilience Model) sem byggir á hugmyndafræði um mikilvægi og úrvinnslu taugakerfisins, sómatískum aðferðum og þeirri nauðsyn að vinna með líkamann í slíkri vinnu. Slík hugmyndafræði hefur t.a.m. verið tengd við fræðimennina Peter A. Levine, Bessel van der Kolk og Elaine Miller-Karas – en hún er upphafsmaður TRM.

Fagmennska er ávallt í fyrirrúmi í störfum Ingibjargar, störf hennar byggjast á gagnreyndu vinnulagi, hún fylgist með þróun í faginu og er í stöðugri endurmenntun og -þjálfun sem gagnast notendum í þeirra úrvinnslu og verkefnum. Þverfagleg samvinna er notendum þjónustu oft mikilvæg og er Hugrekki í góðu samstarfi við ýmsa fagaðila þegar við á, t.a.m. fjölskylduráðgjafa, iðjuþjálfa, sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa, markþjálfa sem og aðra félagsráðgjafa.

Félagsleg þjónusta

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er gerð krafa um að félagsráðgjafi sinni ákveðnum verkefnum sem undir lögin falla – og er það fagnaðarefni að lögin skuli með svo afgerandi hætti fara fram á fagþekkingu til að sinna þessum mikilvæga málaflokki, eða málaflokkum öllu heldur þar sem félagsþjónusta sveitarfélaga spannar mjög vitt svið og krefst þekkingar á ýmsum sviðum.

Ísland er bæði strjálbýlt og samanstendur af mörgum litlum samfélögum. Mörg minni samfélög hafa átt í erfiðleikum með að ráða félagsráðgjafa í fullt starf og því hefur Hugrekki boðið uppá samvinnu við sveitarfélög þar sem félagsráðgjafi Hugrekkis sinnir ákveðnum verkefnum sem heyra undir félagsþjónustu sveitarfélaga. Nú þegar hefur slík samvinna skilað árangri og er hluti af þeirri samvinnu unnin einnig í samvinnu við félagsráðgjafa og aðra fagaðila í fleiri sveitarfélögum – þverfagleg teymisvinna sem eingöngu er framkvæmanleg vegna samstarfsvilja sveitarfélaga og fagaðila og erum við innilega þakklát fyrir að fá að taka þátt í slíkri samvinnu og þróun.

Hugmyndafræði félagsráðgjafa

Félagsráðgjafar vinna ávallt með heildarsýn að leiðarljósi þar sem unnið með einstaklingi í samhengi við umhverfi hans og tengsl við fólk í því umhverfi.  Kenningar í félagsráðgjöf og hugmyndafræði í vinnu með einstaklingum geta verið mismunandi og henta mismunandi hópum og markmiðum en oft er stuðst við kenningar um tengslamyndun og samþætta nálgun. 

Hjá Hugrekki er fólk t.d. hvatt til að nýta sér styrkleika sína til að taka á vandamálum eða hindrunum í lífi sínu.  Slík nálgun félagsráðgjafar byggir á hugmyndafræði um valdeflingu og hjálp til sjálfshjálpar.  Þessi nálgun er algeng t.d. í vinnu með þolendum ofbeldis og byggir á því að fólk hafi sjálft þá færni og þekkingu sem til þarf til að takast á við þær aðstæður sem það stendur frammi fyrir og hlutverk félagsráðgjafans er þá að vera stuðningsaðili í því ferli sem framundan er.  Ýmsar leiðir eru færar til að vinna með afleiðingar ofbeldis.  Það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum og er mikilvægt að finna leiðir sem henta hverjum og einum og verður það hlutverk fagaðila Hugrekkis að vera einstaklingum til stuðnings við að finna sína leið til að vinna sig í gegnum þær hindranir sem hann stendur frammi fyrir, hvort sem um er að ræða afleiðingar ofbeldis eða eitthvað allt annað.

Verð

Öll þjónusta Hugrekkis er rukkuð með því að senda reikning í heimabanka viðkomandi og eru allir skjólstæðingar skráðir í hugbúnað Köru (www.karaconnect.com) með rafrænum skilríkjum.
Hægt er að greiða fyrir hvert og eitt viðtal jafnóðum eða hægt er að nýta sér þau tilboð sem sett eru fram hér að neðan.  Tilboðspakka þarf að greiða fyrirfram – hvort sem þjónustan fer fram í fjarþjónustu eða á staðnum.

Stakt viðtal:
Verð fyrir hvert 50 mín. viðtal er 16.000 kr.

Tilboðspakki (greiddir við upphaf meðferðar):
Verð fyrir 5 viðtöl er 68.000 kr.

Tekið skal fram að hægt er að fá samtalsmeðferð og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum niðurgreidda hjá mörgum stéttarfélögum gegn kvittun og er um að gera að kanna það hjá viðkomandi stéttarfélagi.