Eitt af því sem einkennir margt af því sem ég hef fjallað um í þessum pistlum mínum er að það þarf dálitla þolinmæði til að sjá árangurinn… og þar erum við mörg hver ekki sterk á svellinu… í samfélagi nútímans viljum við helst að lausnirnar séu bak við næsta „klikk“ á tölvumúsinni eða að við getum bara gert eitthvað núna strax og þá sé málinu reddað… alla vega kannast ég vel við það í bæði sjálfri mér og öðrum sem ég umgengst… við erum dálítið óþolinmóð 😉 … en ef við ætlum að ná raunverulegum árangri í … ja nánast hverju sem er – og þar með talið góðri sjálfsrækt… þá þurfum við að hafa þolinmæði í að gera hlutina aftur og aftur yfir ákveðinn tíma… það er spennandi… góða skemmtun og gangi ykkur vel 😊

Y – yfirlit… að hafa yfirlit yfir hlutina í lífinu, yfirsýn… er alltaf hjálplegt fyrir okkar andlegu og tilfinningalegu heilsu… og þá meina ég almenna yfirsýn yfir það sem við ætlum okkur að gera hvern dag, hverja viku og hvar við sjálf höfum pláss í öllu því sem þarf að gera… erum við með það í dagskránni að sinna okkur sjálfum? Ef við höfum litla yfirsýn er líklegra að við gleymum hlutum eins og sjálfsrækt… og við viljum það alls ekki 🕵️‍♂️

Ý – þessi var eiginlega jafn krefjandi og ð… en svo datt mér í hug orðið ýmislegt… sjálfsrækt þarf að vera alls konar… eða ýmislegt… það er ekki eitthvað eitt sem við getum gert og þá verið búin að „afgreiða þessa sjálfsrækt“ heldur þarf hún að innihalda marga þætti… andlega, félagslega, líkamlega og tilfinningalega… og það getur breyst með tímanum og aldrinum hvað það er sem nærir hvern þessara þátta og þess vegna þarf sjálfsræktin alltaf að taka breytingum… hljómar það ekki svolítið eins og spennandi verkefni? 💫

Þ – þakklæti… það verður held ég aldrei ofmetið hversu mikilvægt það er að kunna að vera þakklátur fyrir það sem við höfum, kunnum, getum og eigum… að stunda þakklæti markvisst getur því haft mikil áhrif á líðan okkar og lífsgæði… stundum getur verið erfitt að vera þakklátur, þegar við mætum miklu mótlæti eða þegar okkur líður alls ekki vel og þess vegna getur verið mjög gott að skrifa reglulega niður einhver atriði sem við erum þakklát fyrir… þá getum við rifjað það upp þegar hugurinn stendur á sér 👍

Æ – æfing… og þá er ég ekki bara að tala um líkamlegar æfingar eða íþróttir… heldur tengist þetta inngangi dagsins… að æfa sig í því að gera það sem ræktar okkur… æfa sig í öndun… æfa þakklæti… æfa samskipti… æfa sig í útivist… æfa sig í faðmlögum… eldamennsku… dansi… æfa sig í öllu því sem við viljum hafa inni í okkar sjálfsrækt… því þetta gerist ekki á einum degi muniði 😁

Ö – öndun… það getur stundum hljómar undarlega að öndun sé eitt af því sem vinnur vel gegn kvíða og streitu… og ég man að ég ranghvolfdi stundum augunum þegar ég fór fyrst að heyra um þessa öndun og hafði ekki allt of mikla trú á að hún myndi gera mikið…en það er samt alveg satt – hún í alvöru hefur oft verið minn besti og mikilvægasti bandamaður 😉 það að geta haft stjórn á öndun sinni, hraðanum og dýptinni, getur verið mjög mikilvægt verkfæri til að rækta eigin heilsu og það að anda rólega og djúpt getur raunverulega hægt á hjartslætti og það svo aftur getur dregið úr kvíða 🌄

Þá erum við komin í gegnum allt stafrófið og mikið sem ég hef haft gaman af þessum hugleiðingum sjálf og ég vona að þið getið með einhverju móti notað einhverjar hugmyndir hér eða að þetta geti verið ykkur smá innblástur í ykkar eigin hugmyndir 🤩

Og nú er aðventan framundan með tilheyrandi áreiti og stundum erfiðleikum og ég vona að þessar hugmyndir eti líka gefið ykkur smá verkfæri til að sogast ekki inn í streitu á aðventunni…
Njótum þess að vera saman og rækta okkur sjálf
… alla daga 😊