Nú fer 16 daga átakinu að ljúka… en það þýðir ekki að heimilisofbeldi – eða kynbundnu ofbeldi – eða neinu öðru ofbeldi ljúki… því miður!Í dag langar mig að gefa heilræði… til þeirra sem mögulega þekkja einhverja sem búa við heimilisofbeldi…

1. Ef þig grunar að einhver búi við heimilisofbeldi… taktu þá eftir og fylgstu með…

2. Láttu vita af þér… og þá meina ég… talaðu og spurðu… með virðingu og af einlægni… flestar konur sem búa við ofbeldi vilja viðbrögð og umræður… sem einkennast af þessu tvennu, virðingu og einlægni…

3. Hlustaðu… hlustaðu… og hlustaðu… með öllu sem þú átt… og algjörlega án fordæmingar…

4. Vertu til staðar… án skilyrða… um það til dæmis að yfirgefa ofbeldissambandið… kona sem býr við ofbeldi þarf að eiga einhvern í sínu liði… einhvern sem ekki fer eða hættir að styðja hana…

5. Berðu virðingu fyrir þeim ákvörðunum sem konan tekur – jafnvel þó þú myndir vilja að þær væru öðruvísi… það er ekki einfalt mál t.d. að yfirgefa ofbeldissamband og getur tekið tíma og jafnvel nokkrar „atrennur“…

6. Taktu ekki fram fyrir hendurnar á henni… hún býr við það nú þegar að fá ekki að stýra lífi sínu…

7. Og svo það sem flækir stundum málin… þegar börn eru til staðar… taktu það með í reikninginn… ræddu það af einlægni… hlustaðu… og sýndu áfram og alltaf fulla virðingu… og gleymdu aldrei að börnin þurfa á því að halda að þú látir þig málin varða!

Ofbeldi er beitt á hverjum degi á Íslandi og við þurfum alltaf að halda áfram þessu átaki – alveg óháð 16 dögunum… en þeir eru góð áminning um þennan samfélagslega vanda og vekur alltaf upp mikilvæga umræðu! Og þar sem ofbeldi þrífst oft best í þögninni þá fagna ég umræðunni – hún opnar leiðir og veitir von!