Samtalsmeðferð

Hjá Hugrekki er veitt samtalsmeðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur og geta umræðuefnin verið mismunandi, t.d. samskiptavandi, áfallavinna, uppeldisráðgjöf eða sjálfstyrking. Sérstaklega hefur Ingibjörg sérhæft sig í afleiðingum ofbeldis og úrvinnslu þeirra. Þjónusta Hugrekkis er ávallt notendamiðuð og gengið út frá því að hver einstaklingur sé sérfræðingur í sjálfum sér og eigin lífi.

Meðferðarvinna Hugrekkis byggir á samþættri nálgun, tengslamyndun og heildarsýn – m.a. á hugmyndum um hjálp til sjálfshjálpar og valdeflingu. Hlutverk fagaðila í slíku ferli er að vera einstaklingi til stuðnings á meðan hann finnur þær leiðir sem henta honum vel til að vinna með vandamál sín eða hindranir í lífinu. Ýmsar leiðir og verkfæri eru til, til að vinna með slíkar hindranir og er það líka hlutverk félagsráðgjafa Hugrekkis að kynna fyrir viðkomandi mismunandi leiðir og það er svo einstaklingsins sjálfs að velja þær sem hann telur henta fyrir sig. Þolandi ofbeldis hefur t.d. lifað af atburði og aðstæður þar sem hann hefur þurft að nota eigin aðferðir til að lifa af og býr þar af leiðandi yfir ýmsum styrkleikum sem hann getur haldið áfram að nýta til að vinna með afleiðingar ofbeldisins. Þessir styrkleikar eru skoðaðir og aðferðir sem hafa verið gagnlegar áður geta stundum verið gagnlegar áfram á meðan aðrar eru það kannski ekki. Þá er það hlutverk félagsráðgjafans að vera einstaklingi til stuðnings á meðan hann finnur hvort leiðir hans eru gagnlegar eða ekki – og finna nýjar sem nýtast betur þegar það á við.

Þá eru til ýmsar aðferðir til úrvinnslu áfalla, t.a.m TRM (Trauma Resilience Model) sem byggir á hugmyndafræði um mikilvægi og úrvinnslu taugakerfisins, sómatískum aðferðum og þeirri nauðsyn að vinna með líkamann í slíkri vinnu. Slík hugmyndafræði hefur t.a.m. verið tengd við fræðimennina Peter A. Levine, Bessel van der Kolk og Elaine Miller-Karas – en hún er upphafsmaður TRM. Ingibjörg hefur setið námskeið í slíkri vinnu og eins hefur hún lokið námskeiðum í meðvirkni- og áfallameðferð Piu Mellody.

Fagmennska er ávallt í fyrirrúmi í störfum Ingibjargar, störf hennar byggjast á gagnreyndu vinnulagi, hún fylgist með þróun í faginu og er í stöðugri endurmenntun og -þjálfun sem gagnast notendum í þeirra úrvinnslu og verkefnum. Þverfagleg samvinna er notendum þjónustu oft mikilvæg og er Hugrekki í góðu samstarfi við ýmsa fagaðila þegar við á, t.a.m. fjölskylduráðgjafa, iðjuþjálfa, sálfræðinga, náms- og starfsráðgjafa, markþjálfa sem og aðra félagsráðgjafa eftir því sem hentar hverjum og einum.

Ingibjörg hlaut sérfræðileyfi Landlæknis sem klínískur félagsráðgjafi í desember 2021 og hefur áralanga reynslu af því að sinna samtalsmeðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur.