Fagleg fjarþjónusta

Það er ekki löng hefð fyrir því á Íslandi að veita fjarmeðferð eða fjarheilbrigðisþjónustu og fyrir marga er þetta „varakostur“. Öðrum finnst þetta spennandi kostur sem gefi nýja möguleika til að vinna með skjólstæðingum óháð staðsetningu og þar með stækka bæði sitt eigið svæði og auka aðgengi fyrir fólk að faglegri þjónustu. Í raun höfum við líka í þó nokkurn tíma verið með stuðning við fólk óháð staðsetningu t.d. með hjálparsíma Rauða krossins og neyðarsíma Kvennaathvarfsins. Þannig að hugmyndin er ekki alveg ný – meira að segja Freud notaði stundum bréfaskriftir við skjólstæðinga sína svo að einhver vísir hefur verið að þessu þó að formið, þ.e.a.s. internetið og myndviðtöl, sé nýtt af nálinni. Spurningin sem við kannski stöndum frammi fyrir í dag er sú hvernig við ætlum að gera þetta með öruggum, vönduðum og faglegum hætti fyrir alla, bæði okkur sem fagfólk og ekki síður fyrir skjólstæðingana okkar.

Frá árinu 2013 hefur Hugrekki boðið fjarþjónustu til skjólstæðinga og frá árinu 2015 hafa einnig verið tekin viðtöl á staðnum. Þegar Hugrekki leit dagsins ljós var ekki gert ráð fyrir slíkum möguleikum t.d. hjá landlækni og ekki hægt að sækja sérstaklega um fjarheilbrigðisþjónustu. Það er því óhætt að segja að þetta hafi verið frumkvöðlastarf og við leit að einhverju sambærilegu á sínum tíma var ekkert að finna hérlendis. Í samtölum mínum við fólk á þessum tíma var ekki mikill skilningur á því um hvað væri að ræða, fólk áttaði sig ekki á því að um fjarheilbrigðisþjónustu væri að ræða – og sennilega tókst mér ekki að koma því nægilega vel til skila heldur. Síðan hefur sem betur fer margt breyst, sífellt fleiri sjá þennan möguleika og nú hefur landlæknir gefið fyrirmæli um að allir sem ætla að stunda fjarheilbrigðisþjónustu skuli sækja um það sérstaklega og um slíka þjónustu gilda ákveðnar reglur. Hugrekki hefur að sjálfsögðu sótt um slíkt leyfi og var meðal fyrstu starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna til að fá það leyfi. Ég fagna því hversu langt við höfum komist á þessum sex árum sem hafa liðið frá stofnun Hugrekkis og hlakka til að halda áfram að þróa og bæta aðgengi fólks að þessum möguleikum.

Ég sjálf, Ingibjörg, er félagsráðgjafi sem veiti samtalsmeðferð á einkastofu og hef gert frá því ég stofnaði Hugrekki. Þegar ég ákvað að gera þennan draum að veruleika fannst mér mikilvægt að afla mér upplýsinga og sækja þjálfun, til þess að tryggja að skjólstæðingar mínir fengju bestu mögulegu þjónustu sem völ væri á. Ég ákvað því að sækja mína þjálfun í fjarmeðferð til Bretlands en ekkert slíkt var í boði á Íslandi. Árið 2014 tók ég því stutt námskeið í “online counselling” og 2018 lauk ég síðan eins árs klínísku diploma námi í fjarmeðferð, „diploma in online counselling and psychotherapy“ frá THE ACADEMY FOR ONLINE COUNSELLING & PSYCHOTHERAPY. Í dag kenni ég og hanna námskeið í fjarmeðferð hjá þeim og hef verið hluti af því teymi frá því snemma árs 2018. Einnig kenni ég grunnnámskeið í fjarþjónustu fagaðila í samvinnu við Símenntun Háskólans á Akureyri.

Fagleg fjarþjónusta was last modified: December 17th, 2020 by Ingibjörg Þórðardóttir