Um síðustu helgi fór ég með yngri dóttur minni á Símamótið – stærsta fótboltamót fyrir stelpur á landinu – og það er alveg ótrúlegt hvað það er mikil spenna að fylgjast með 10 ára stelpum spila fótbolta. Þau ykkar sem þekkið mig… lítið eða mikið… vitið að ég hef nákvæmlega engan áhuga á fótbolta almennt og þegar ég var barn hélt ég með Liverpool bara af því að bróðir minn hélt með Manchester United (eins og góð stóra systir að sjálfsögðu gerir) … og eina skiptið sem ég hef misst mig pínu yfir fótbolta fullorðinna var þegar íslenska karlalandsliðið sendi England heim af HM þarna um árið.

Svo er það þannig að yngri dóttir mín elskar fótbolta og hefur æft með sínu liði í bráðum sex ár… og það þýðir að ég hef algjörlega þurft að enduskoða eigin áhuga á þessu sporti… ég hef alltaf kviðið því pínulítið að fara með henni á mót og eiginmaðurinn hefur séð um það þegar hann mögulega hefur kost á því… en í sumar er staðan þannig að ég fer með henni á öll mótin og þar er Símamótið lang stærst og tekur nokkra daga… og ég kveið töluvert fyrir því… en einhvern veginn var það allt annað en ég ímyndaði mér (ég hef samt áður farið sko) …

það var ótrúlega spennandi og mörg mömmu- og pabbahjörtu tóku marga kippi um alla velli Breiðabliks yfir helgina … og þar með talið mitt eigið mömmuhjarta… stundum töpuðu þær leikjum… stundum voru jafntefli… stundum unnu þær… stundum skoruðu þær og stundum ekki… stundum vörðu þær og stundum ekki… og það er töluverð áskorun fyrir okkur foreldra að standa á hliðarlínunni og hvetja og vera styðjandi án þess að fara í að skipta okkur af… og því miður þá er ég alveg sek um að hafa skoðanir á þessu öllu saman (án þess að hafa mikið vit á reglunum og bestu leiðunum til að ná þeim árangri sem þær vilja) … og ég þurfti talsvert að bíta í tunguna á mér þarna á hliðarlínunni og vona að mér hafi að mestu tekist að vera dóttur minni til sóma og fyrirmyndar… því það er nefnilega þannig að bæði hún og allar hinar stelpurnar og allir þjálfararnir þeirra hafa umtalsvert meira vit á þessu en ég eða margir hinna foreldranna … og þau hafa æft og unnið að þessum mótum í heilt ár – og jafnvel lengur – og það er ekki mitt eða annarra foreldra að segja þeim til þegar á mót er komið… þá er það okkar hlutverk að styðja liðið og hvetja… hvort sem gengur vel eða ekki… það er okkar hlutverk að hugga og vera til staðar þegar hjörtu 10 ára stelpna kremjast aðeins við að skora ekki eða verja ekki… og það er okkar hlutverk líka að kenna þeim að bæði tapa og sigra með virðingu… virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum keppendum.

Fótboltakveðja frá mömmunni sem er alltaf að læra eitthvað nýtt og skemmtilegt 😉