Nú eru áramótin framundan og við, mannfólkið, erum gjörn á að strengja alls konar „áramótaheit“ … fyrirheit um að bæta eitt og annað í eigin fari og taka okkur á í hinu og þessu.  Þessi heit geta snúið að bættu mataræði og hreyfingu, fjármálum, samskiptum eða hverju sem er.  Oft heyrast setningar eins og að „ég ætla að hætta borða nammi strax í byrjun janúar“.. eða „ég kaupi mér kort í ræktinni um áramótin“ .. eða „ég fer út að hlaupa reglulega strax eftir áramótin“.  Það er í sjálfu sér frábært að setja sér ný markmið á tímamótum eða í raun hvenær sem er.  Markmið eru alltaf góð og mjög eðlilegt að nota tímamót eins og upphaf nýs árs til að setja sér ný markmið.  Ég gerði þetta líka að umræðuefni mínu í upphafi ársins og þá út frá því sjónarmiði að það sé mikilvægt að muna eftir því góða sem við höfum hingað til áorkað en ekki bara því sem okkur hefur ekki tekist.  Það er ennþá mjög mikilvægt og hvet alla til að hafa það í huga en að þessu sinni langar mig að leiða hugann að öðru sem líka er mikilvægt þegar við endurskoðum markmiðin okkar og áskoranir.  Eitt af því sem er mikilvægt þegar við setjum okkur markmið er að þau séu raunhæf, að við eigum raunverulegan möguleika á því að ná þeim án þess að við þurfum að umturna lífi okkar.  Ef ég hef til dæmis verið mikil kyrrsetumanneskja og langar að nota nýtt ár til að setja inn hreyfingu er kannski ekki snjallt að setja það markmið að fara út að hlaupa 10 km á dag – það væri kannski raunhæfara að byrja á því að áætla gönguferðir annan hvern dag til að byrja með og auka það svo .. þó svo að langtímamarkmiðið gæti þá verið að geta hlaupið 10 km.   Eitt af því sem ég sjálf hef svo oft gert er einmitt þetta – að ætla að gleypa allan heiminn í einum bita í stað þess að hugsa í litlum skrefum… skrefum sem hvert og eitt færir mér þennan heim þá á lengri tíma.  Þetta hefur því miður aldrei tekist, þetta með að gleypa í heilum bita en þegar mér hefur tekist að búta stóra markmiðið niður í smærri og fleiri markmið – sem þá jafnvel enda á stóra markmiðinu – þá hefur þetta gengið betur.   
Það er líka mikilvægt að markmiðin séu sýnileg og að þú getir skoðað þau daglega, að þau séu markviss og vel skilgreind.  Það er t.d. ekkert sérstaklega vel skilgreint markmið að segja, „nú ætla ég bara að borða hollan mat frá og með 1. janúar“ eða „ég ætla að byrja að hreyfa mig reglulega á næsta ári“ .  Hvað nákvæmlega er hollur matur og hvað er það að hreyfa sig reglulega.  En ef ég segi „ég ætla að hafa grænmeti með kvöldmatnum á hverjum degi og borða nammi bara á laugardögum“ eða „ég ætla að labba í 20 mínútur eftir kvöldmatinn á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum“ er miklu líklegra að við náum þeim markmiðum þar sem við erum búin að skilgreina betur hver þau eru og hvernig og hvenær við ætlum að vinna að þeim.  Þetta eru nokkur atriði sem er mikilvægt að hafa í huga þegar við setjum okkur markmið og ekki tæmandi listi.  Það síðast sem mig langar að minna okkur á varðandi markmiðin og ég held að sé ekki síður mikilvægt er að markmiðin séu okkar eigin og miðist við það sem við sjálf viljum … ekki markmið sem okkur finnst að við eigum að setja okkur af því að þau „eru í tísku“ eða „allir hinir setja sér þau“.  
Ég vona að árið ykkar allra hafi verið gott og að þið hafið getað tekist á við þær áskoranir sem lífið hefur boðið ykkur.  Þá vona ég að næsta ár verði ykkur heillaríkt og bjóði ykkur spennnandi áskoranir að takast á við.


Gleðilegt ár, 
Ingibjörg