Greinar og pistlar

Greinar og pistlar um ofbeldi

Ofbeldi hefur margar birtingarmyndir og á sér stað á mörgum stöðum í mannlegum samskiptum.  Þegar talað er um ofbeldi getur það verið andlegt, líkamlegt og/eða kynferðislegt.  Því getur verið beitt gegn ókunnugum og/eða þeim sem gerandi þekkir mjög vel.  Bæði börn og fullorðið fólk getur verið beitt ofbeldi og bæði börn og fullorðnir geta beitt ofbeldi.

Ofbeldi er þess eðlis að það brýtur niður sjálfsmynd þess sem því er beittur og sá sem beitir ofbeldi gerir það oft í skjóli þess að hann hefur vald yfir þolanda sínum, annað hvort stöðu sinnar vegna eða vegna þess að hann hefur brotið vilja og kjark þolanda síns á bak aftur.  Þegar talað er um ofbeldi í íslenskum fjölmiðlum er sjónum oft beint að ofbeldi á heimilum, kynferðisofbeldi gegn börnum, einelti í skólum og ofbeldi í fjölskyldum.  

Afleiðingar ofbeldis geta verið mjög alvarlegar og mikilvægt er að samfélagið sé í stakk búið til að taka á ofbeldi, hvort sem er gegn börnum eða fullorðnum.  Afleiðingar ofbeldis hafa ekki eingöngu áhrif á þolandann heldur einnig fjölskyldu hans og nánasta umhverfi og því má segja að það sé samfélagsleg skylda okkar að fræða fagstéttir okkar til þess að takast á við þessi mál og vinna með afleiðingarnar, hvort sem um ræðir lækna, sálfræðinga, kennara, leikskólakennara, félagsráðgjafa eða aðra sem vinna með mannleg samskipti og hafa afskipti af málefnum barna og fjölskyldna.  Þá er mikilvægt að fræðsla um ofbeldi og viðbrögð við því snúi ekki eingöngu að afleiðingum og þolendum, heldur einnig að áhættuþáttum og gerendum.

Hugrekki.is mun leggja áherslu á að setja inn greinar og fleira fræðandi efni um ofbeldi inn á þennan vef og er það von mín að sá fróðleikur nýtist bæði þolendum, aðstandendum, gerendum, fagaðilum og öðrum sem vilja fræðast um málefnið.

Ofbeldi karla gegn konum – MA ritgerð

Greinar og pistlar um eitt og annað…

Sem betur fer er lífið ekki bara ofbeldi heldur alls konar annað – bæði skemmtilegt og ekki svo skemmtilegt. Þess vegna verða hér birtar ýmsar greinar um málefni sem Hugrekki lætur sig varða – ýmislegt sem snertir samskipti, sjálfsrækt, félagsráðgjöf, samtalsmeðferð, börn og fjölskyldur … og hvað sem er annað sem kemur upp í hugann og getur verið gaman eða fróðlegt að glugga í yfir góðum kaffibolla.

Illt umtal – Ekki einkamál þeirra sem taka þátt

Að vera ekki alltaf hið fullkomna foreldri