Þessi dagur… 10. desember er alþjóða mannréttindadagurinn og lokadagur 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi… og mig langar af því tilefni að rifja upp efni sem ég skrifaði pistil um fyrir nokkrum árum og á enn við… því það eru mannréttindi að börn alist upp án ofbeldis!

Heimilislíf á hátíð ljóss og friðar…

Nú er genginn í garð sá tími á árinu sem mörg okkar tengja við ljós, frið og gleði – hamingjuríkar fjölskyldustundir, kærleika og umhyggju. Og mörg okkar upplifa nákvæmlega þetta, núna á aðventunni og jólunum. Sem betur fer! Sum okkar upplifa þetta í bland við ákveðna streitu um að “ná að gera allt fyrir jólin” og jólagjafainnkaup – sem er efni í allt annan pistil – en ef við höldum okkur á jörðinni og slökum líka á þá komumst við oftast nokkuð klakklaust í gegnum þetta.

En fyrir sumar fjölskyldur er þessi tími alls ekki uppfullur af tilhlökkun og gleði heldur blandaður ótta og kvíða. Stundum vegna fátæktar eða bágrar fjárhagsstöðu. Stundum stafar vanlíðanin af aukinni áfengisneyslu, auknu álagi og streitu, söknuði vegna fráfallinna ástvina og alls kyns öðrum hlutum sem gera lífið flókið og stundum skelfilega erfitt. Árið 2020 er svo með viðbótar álagi eins og margir hafa nú þegar rætt og ýta undir aukna streitu…

Og svo… af því að ég er ég – og ég tala oft um það sem ekki er svo skemmtilegt – þá langar mig að tala við ykkur um enn aðrar hliðar á heimilislífi hátíðanna… hliðar sem ekki er eins skemmtilegt að tala um en alveg ofsalega nauðsynlegt að geta talað um… og hlustað á.

Fyrir sumar fjölskyldur… og þar með sum börn – er þessi tími nefnilega ekki bara erfiður og fullur af vanlíðan heldur er hann beinlínis hættulegur. Já, ég veit… það er vont… og erfitt… Og hvað á ég við? Ég á við að þau geta verið í hættu heima hjá sér… á jólunum. Eiga ekki jólin að vera tíminn þar sem okkur öllum líður vel? Jú, í bestu útgáfunni af heiminum væri það þannig … en við erum því miður ekki alveg komin þangað, ekki ennþá alla vega. Og það er því miður þannig að á þessum árstíma eykst ofbeldi á heimilum… og ég velti því alveg fyrir mér hvaða þýðingu það getur haft… akkúrat þetta árið… Covid-árið 2020?

En hver er ábyrgð okkar sem samfélags þegar kemur að þessum málum? Hvar og hvernig getum við verið vakandi og gripið inní? Hver er okkar skylda? Og hvenær erum við að skipta okkur af því “sem okkur kemur ekki við”? Þetta eru mikilvægar spurningar sem við verðum öll að svara og standa skil á. Mín skoðun er sú að þegar börn eru annars vegar þá erum við mjög sjaldan – nánast aldrei – að skipta okkur af einhverju sem okkur kemur ekki við, því ef okkur ofbýður framkoma einhvers gagnvart barni þá er hegðunin sennilega ekki eins og hún á að vera og við verðum að treysta eigin dómgreind.

Ábyrgð okkar er mikil og okkur ber að taka hana alvarlega. Við verðum ekki bara að skipta okkur af og grípa inní þegar aðstæður eru augljósar. Við verðum líka að vera vakandi fyrir líðan og tjáningu barna. Þegar barn í skólanum hefur alls ekkert að segja um það hvað það gerði með mömmu og pabba í jólafríinu… þegar barn dregur sig alltaf í hlé þegar fullorðið fólk fer að tala hærra… þegar barn hrekkur endurtekið í kút við snertingu fullorðinna… þegar barn verður hrætt og óöruggt þegar foreldri kemur og sækir það t.d. á leikskólann… þegar barn vill ítrekað ekki fara heim af íþróttaæfingu og bíður eins lengi og það mögulega getur… og svona mætti lengi telja… þá verðum við – sem erum fullorðin – að gera okkur grein fyrir að þarna GETUR verið á ferð merki um mikla vanlíðan .. og þá er MÖGULEIKI að barnið hafi upplifað eða búi við ofbeldi. Þetta eru ekki örugg merki um ofbeldi… en þetta eru möguleg merki um það og þá ber okkur að kveikja á viðvörunarbjöllunum og fylgjast með… því barnið GÆTI verið að reyna að senda merki… og við eigum ekki að stoppa við það að fylgjast með… við megum líka SPYRJA börn hvernig þeim líði og hvort við getum með einhverju móti hjálpað til… ef það verður barn á okkar vegi sem lítur út fyrir að líða ekki vel þá höfum við leyfi til að gefa okkur að barninu og spyrja “er allt í lagi…” … og ef okkur GRUNAR að barn búi við ofbeldi, vanrækslu eða að öðru leyti við óviðunandi aðstæður þá ber okkur skylda til að bregðast við og tilkynna það til barnaverndar – það er ekki val heldur skylda …

Ég veit að það sem ég er að segja er sárt að heyra eða lesa og kannski langar okkur enn síður að heyra það á tímum hátíðar ljóss og friðar… og ég skil það svo vel… við viljum auðvitað að öllum börnum líði vel – og ekki síst á tímum eins og jólum – og það er erfitt að þurfa að heyra að þannig sé það ekki alltaf … en ég hef nú sagt það oft áður og segi það aftur eins oft og ég þarf … það eru allt of mörg börn sem þurfa að lifa við þær aðstæður sem ég er að lýsa og þá verðum við – fullorðna fólkið – að geta hlustað … og þá meina ég, virkilega hlustað!!