Flest veltum við eflaust fyrir okkur hvað einkenni gott parasamband. Hvernig stendur á því að sum sambönd endast en önnur ekki? Hvernig virðast sum pör alltaf geta leyst málin en önnur virðast fljót að flýja hvort frá öðru? Og hver er hin “fullkomna uppskrift” að góðu sambandi? Ef einhver ætti hina einu og réttu töfralausn yrði kannski minna um sambandsslit og særindi… og viðkomandi yrði sjálfsagt vellrík(ur) af því að hafa töfralausnina 🙂 Ég ætla því ekki að láta sem ég hafi hana en ég get hins vegar dregið fram nokkra þætti sem skipta miklu máli til að byggja upp gott samband.


Í fyrsta lagi skiptir miklu máli að við göngum inn í samband með maka okkar af því að við elskum viðkomandi og af því að okkur virkilega langar til þess.


Í öðru lagi er mikilvægt að fara inn í samband í fullri alvöru og gera sér grein fyrir því fyrirfram að gott samband er vinna… og vinna er ekki bara glens og gaman heldur skiptast á skin og skúrir – með öllu sem því tilheyrir.


Í þriðja lagi skiptir miklu máli hvernig við lítum á þarfir okkar og makans. Það skiptir miklu máli í því að byggja upp og viðhalda góðu sambandi að halda jafnvægi í því til hvers við ætlumst af makanum og af okkur sjálfum. Við berum sjálf endanlega ábyrgð á okkur sjálfum og þurfum að meta eigin þarfir en getum jafnframt – og sennilega langar – að mæta þörfum maka okkar… og þannig næst jafnvægi þegar báðir aðilar taka sína ábyrgð, meta eigin framkomu og þarfir um leið og hægt er að taka tillit til makans.

Í fjórða lagi er tjáning mikilvæg – og hún þarf að vera heiðarleg og einkennast af virðingu við báða aðila. Ég hef sjálf fallið í þá gryfju að ætlast til þess að minn maki „lesi hugsanir“ mínar og „viti“ hvað ég vil og vil ekki… og reynslan hefur kennt mér að það skilar engum árangri 😉 Og gleymum ekki að tjáning er ekki eingöngu að „tala“ heldur líka að „hlusta“ … það er því jafn mikilvægt að geta hlustað eins og það er að geta sagt hug sinn! Og við verðum að geta gert hvoru tveggja bæði í skini og skúrum!


Í fimmta lagi kemur upp í hugann samvinna… samvinna um allt það sem tilheyrir sambandinu og heimilinu. Ekki svo að skilja að öllum verkum sé skipt nákvæmlega í helming heldur að báðir aðilar séu virkir þátttakendur í heimili, sambandi, barnauppeldi og hverju öðru sem getur komið upp… og að báðir aðilar taki ábyrgð á sinni eigin þátttöku og ábyrgð.


Eflaust er hægt að velta upp fleiri þáttum en ég leyfi mér þó að segja að ef báðir aðilar sambands geta í einlægni sagt að þau fylgi þessum skrefum er líklegt að sambandið einkennist af virðingu, trausti, kærleik, vináttu og ást… og þá er hægt að sigrast í ýmsum hindrunum í lífinu og allt eru þetta þættir sem byggja góðan grunn að sambandinu 😉

Góða helgi frá Hugrekki

❤