Hugrekkið… sem felst í því að fara frá ofbeldismanneskju og…
Það er ekki út í loftið sem ég valdi að hafa nafnið á stofunni minni „Hugrekki“ …
Ég hef lengi unnið með þolendum ofbeldis og það sem kemur aftur og aftur upp í hugann í þeirri vinnu er nákvæmlega það…
Hugrekki…
Það þarf ekki lítið hugrekki til að taka þá ákvörðun að yfirgefa ofbeldismanneskju… það þarf ekki lítið hugrekki til að halda svo út þá ákvörðun… því það reynir heldur betur á það þegar ofbeldissamband er yfirgefið (og það tengsist líka seiglunni sem ég skrifaði um síðast) …
Það þarf ótrúlega mikið hugrekki til að halda það út að hafa yfirgefið ofbeldissamband því eðli þessa ofbeldis er þannig að sá sem beitir því, notar oft allt sem hægt er til að fá þolandann aftur… til dæmis ógnanir, loforð um að allt verði betra, aukið ofbeldi, beitir börnunum beitt vopnum, kemur í veg fyrir aðgengi að eignum, gerir allt til að tefja skilnað og svona mætti halda lengi áfram…
Það þarf líka mikið hugrekki til að tala um ofbeldið sem hefur verið beitt… segja sínum nánustu frá því, vinum og fjölskyldu, jafnvel segja frá því opinberlega… vera tilbúin til að ræða það við þá sem geta veitt stuðning… og jafnvel að ræða við börnin sín og takast á við þær afleiðingar sem það hefur haft á börnin, ekki bara þolandann… öll fjölskyldan líður fyrir það þegar ofbeldi er beitt á heimili – og þar með samfélagið í heild! …
Þá má ekki gleyma því að það þarf gríðarlegt hugrekki til að leita sér aðstoðar í kjölfar ofbeldis… hvort sem það er strax, fljótt eða að löngum tíma liðnum… leita eftir aðstoð fagaðila… sem geta verið alls konar… ýmis konar sjálfshjálp, hjálp frá samtökum eins og Drekaslóð eða öðrum, aðstoð ýmis konar fagstétta eins og félagsráðgjafa, fjölskyldufræðinga, sálfræðinga eða öðrum sem hafa sérþekkingu á ofbeldi, eðli þess og afleiðingum …
Og að lokum… ef viðkomandi ákveður að leggja fram kæru… þá krefst það grettistaks… og þá getur þurft hugrekki sem aldrei fyrr… sem er nú sennilega efni í allt annan pistil…
Eiitt af hlutverkum okkar, sem samfélags, er að taka vel á móti öllum þeim sem segja frá ofbeldi, tala um ofbeldi, leita aðstoðar vegna ofbeldis, kæra ofbeldi… ég veit það er ekki auðvelt og okkur finnst vont að horfast í augu við þann veruleika að fólk beiti sína nánustu ofbeldi… en við verðum samt að gera það… það getur verið spurning um líf!
Berum því alltaf virðingu fyrir því hugrekki sem þolendur sýna með frásögnum sínum!