Samvinnuverkefni Hugrekkis – ráðgjafar og fræðslu og Léttari Lausna – samskipta og fjölskylduráðgjafar
Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir 12 ára stelpur þar sem unnið er með styrkleika þeirra og samskipti við sjálfar sig og hverja aðra. Skoðaðir eru þeir þættir sem hafa áhrif á sjálfsmyndina, netnotkun og hvernig samskipti vinkonur vilja eiga. Unnið í verkefnavinnu og leikjum í samvinnu við stelpurnar. Kennarar eru Ingibjörg Þórðardóttir og Sigríður Ásta Hauksdóttir.
Þetta námskeið var hannað og þróað í samvinnu við Soroptimistaklúbb Húsavíkur og nágrennis árið 2017 og er nú orðin fastur liður í starfsemi okkar allra sem að því koma og stelpurnar hlakka til að koma okkar í langan tíma – og fyrir það erum við bæði þakklátar og innilega glaðar. Þetta námskeið er í sífelldri þróun og við Sigga Ásta lærum mikið af þeim í hvert skipti og notum þann lærdóm alltaf til að endurbæta og þróa námskeið. Það er líka gaman að segja frá því að þátttakendur á fyrsta námskeiðinu gáfu námskeiðinu nafn og var lýðræðislega kosið um þau nöfn sem komu fram í hugmyndum frá stelpunum sjálfum.
Þetta námskeið var valið verkefni mánaðarins í janúar 2021 af Evrópusamtökum Soroptimista og við stöllur erum að sjálfsögðu mjög stoltar og ánægðar með þann heiður – og það er okkur líka einstakur heiður að fá það frábæra tækifæri að valdefla stelpur og veita þeim verkfæri til alls kyns lífsleikni.
Nokkrar af mörgum umsögnum stelpnanna um hvað þær lærðu á námskeiðinu:
- Vinátta er mikilvæg í lífi fólks
- Ég lærði að elska mig, að vera ánægð með mig.
- Að við eigum að elska okkur sjálfar
- Uhmm, ég lærði að elska sjálfa mig og að nota menti.com 🙂 takk fyrir mig.
- Mjöööööööggg mikið, takk fyrir mig !!! 🙂
- Að ég er nóg! Og að elska sjálfa mig! Takk kærlega fyrir mig Inga og Sigga, þið eruð bestar.
- Að elska sjálfa mig og að vera betri vinkona. Takk kærlega fyrir mig.