Á nýju ári höfum við mörg hver ákveðnar hugmyndir um það hverju við ætlum nú að breyta á þessu ári, hvað við viljum gera betur og hvernig við ætlum að bæta okkur.
Þetta geta verið atriði eins og að hreyfa okkur oftar, borða minna nammi, vakna fyrr á morgnana, hringja oftar í vini og vandamenn, standa okkur betur í vinnunni og svona mætti lengi telja. Á tímamótum eins og áramótum förum við þá oft líka yfir farin veg og veltum því fyrir okkur hvað við hefðum átt að gera betur á árinu sem var að líða, hvar við stóðum okkur ekki nógu vel og við hefðum nú átt að… og svo framvegis.
Það er alveg gott og gilt að stoppa við og skoða hvað við höfum haft fyrir stafni, hverju við höfum áorkað og hvort við viljum gera eitthvað betur. Það sem hins vegar getur orðið verra er þegar við eyðum orkunni í það að einblína á allt það sem „ekki tókst“ og ætlum sko „heldur betur að taka okkur á – og það með trompi“.
Þegar við viljum ná bættum árangri í því sem við erum að gera, hvort sem það tengist foreldrahlutverki, vinnunni, heilsunni, samskiptum okkar við aðra eða einhverju allt öðru, er mikilvægt að skoða það sem við viljum gera öðruvísi en áður. Hins vegar er líka mikilvægt að skoða það sem við höfum gert vel og viljum halda áfram að gera eins og við höfum gert hingað til. Það veitir okkur aukið sjálfstraust að skoða það hvar við höfum staðið okkur vel, hvernig við höfum náð þeim árangri sem við höfum náð nú þegar. Það er það sem við höfum gert vel hingað til, sem við viljum gera meira af. Aukið sjálfstraust veitir okkur svo kraft til að leggja meira á okkur, bæta okkur og takast á við stærri og meiri verkefni – hver svo sem þau eru. Ef við aftur á móti erum of upptekin af því að skoða það sem miður fór, er líklegt að við höfum hvorki tíma né orku til að horfa á það sem vel hefur verið gert. Þá er líka líklegt að sjálfstraustið minnki og að það dragi úr okkur kraft.
Þegar við erum að takast á við uppeldi barnanna okkar viljum við draga fram það sem þau gera vel í stað þess að einblína á það þegar þau gera mistök. Af hverju ætti eitthvað annað að eiga við um okkur sjálf? Ekki það að við ætlum ekki að horfast í augu við það sem við þurfum að bæta, við ætlum bara ekki að láta það taka allan tímann og orkuna. Mín fyrstu skilaboð á þessu ári, til ykkar allra, eru því þessi. Verið uppteknari af því sem þið gerið vel heldur en því sem þið þurfið að bæta! Notið hluta af orkunni í að bæta sjálfstraustið í stað þess að brjóta það niður!
Gleðilegt nýtt ár og gangi ykkur vel að takast á við nýjar áskoranir á nýju ári!