Mér hefur alltaf þótt það athyglisvert að skoða hvernig sjálfsmyndin okkar myndast og breytist og hvernig hún getur skipt sköpum í því hvernig við tökumst á við eitt og annað.

Að hafa góða sjálfsmynd getur verið mikilvægt í alls kyns aðstæðum.  Það hvort við höfum góða sjálfsmynd getur haft áhrif á það hvernig við tökumst á við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir.  Það getur líka haft áhrif á það hvort við yfirhöfuð leggjum í það að takast á við ákveðin verkefni eða ekki.  Sjálfsmyndin okkar er líka einmitt það… okkar… og við getum sjálf gert margt með því að skilja hvaðan hún kemur og hvernig við getum haft áhrif á hana.

En hvað er þá sjálfsmynd og hvaða máli skiptir hún?  Sjálfsmyndin okkar er það hvaða hugmynd við höfum um okkur sjálf.  Hver við erum og hvernig við erum.  Þessi mynd er nátengd því hvaða sjálfsálit við höfum en það er það hvaða mat við leggjum á okkur sjálf.  Álit okkar á okkur sjálfum getur verið bæði gott og slæmt og eins getum við haft jákvæðar hugmyndir um okkur sjálf en líka neikvæðar.  Ef ég hef jákvæðar hugmyndir um sjálfa mig er líklegt að mat mitt á sjálfri mér sé líka gott.  Hvoru tveggja eykur það sjálfstraustið en það er það hvernig ég treysti mér til að takast á við lífið og tilveruna, þ.e. sú trú sem ég hef á sjálfri mér og eigin verðleikum.  Öll þessi hugtök eru nátengd og stundum bara hreinlega erfitt að greina á milli þess hvað er hvað… en það að hafa góða sjálfsmynd eykur sjálfsálitið og það eykur sjálfstraustið… og svo öfugt.  Allt spilar þetta saman og allt skiptir þetta máli í því hvernig við komum fram, bæði við okkur sjálf og fólk í kringum okkur.  Þegar ég hef góða sjálfsmynd og gott sjálfstraust er líklegra að ég komi fram við sjálfa mig af virðingu og auki þar með sjálfsvirðingu mína og um leið eru þá líka auknar líkur á því að ég sýni öðrum í kringum mig aukna virðingu. 

En er sjálfsmyndin okkar bara eitthvað eitt og hvernig myndast hún?
Við höfum í raun ekki bara eina sjálfsmynd heldur margar og að hluta til eru þær komnar saman í ákveðnum kjarna, einhverja hugmynd sem við höfum um okkur sjálf sem manneskjur.  Að hluta til endurspeglast sjálfsmyndirnar okkar líka í þeim hlutverkum sem við höfum eða tökum okkur í lífinu.  Í kjarnanum hef ég hugmyndir t.d. um það hvort ég er réttlát, samviskusöm og heiðarleg manneskja.  Ég hef svo líka ákveðin hlutverk í lífinu, t.d. móðir, vinkona, eiginkona, kona, fagmanneskja, dóttir eða starfsmaður.  Ég get haft góða sjálfsmynd sem móðir og verið með þá hugmynd um sjálfa mig að ég sé nokkuð góð móðir en á sama tíma get ég haft lélega sjálfsmynd sem vinkona og haft þá hugmynd að ég sé í raun frekar ómöguleg vinkona. 
Sjálfsmyndin okkar byrjar að myndast strax í æsku og hún heldur áfram að myndast og breytast, í raun alla ævi.  Það hvernig annað fólk bregst við okkur þegar við erum börn og unglingar hefur mikil áhrif á það hvernig sjálfsmynd við höfum og þessi samskipti okkar á fyrstu æviskeiðunum myndar fyrsta kjarnann í sjálfsmyndinni okkar.  Þegar við svo verðum fullorðin höfum við ákveðnar hugmyndir um okkur sem manneskjur og þessar grunnhugmyndir hafa áhrif á sjálfsmyndirnar okkar í hinum ýmsu hlutverkum okkar.  Sjálfsmyndirnar okkar halda svo áfram að breytast í samskiptum okkar við umhverfið og fólk í kringum okkur en einnig í samskiptum okkar við okkur sjálf. 
Það hvernig við komum fram við okkur sjálf og tölum við okkur skiptir líka máli um það hvaða mynd við höfum af okkur sjálfum.  Ef ég segi sjálfri mér það daglega að ég sé t.d. ekki góð vinkona og tel upp fyrir mig sjálfa öll þau mistök sem ég hef gert í samskiptum við vinkonur mínar, tel upp allt það sem ég ætti að gera öðruvísi og hvernig ég hef klúðrað einhverju í samskiptunum, þá er líklegt að ég haldi áfram að hafa þá mynd af sjálfri mér að ég sé ekki góð vinkona.  Ef ég hins vegar gef sjálfri mér leyfi til að gera mistök en rakka sjálfa mig ekki niður fyrir þau, leyfi mér að segja sjálfri mér hvað ég hef gert vel í samskiptunum og það sem ég er ánægð með í fari mínu sem vinkona, þá er líklegra að ég bæti sjálfsmyndina á þessu sviði.  Þannig höfum við sjálf mikið um það að segja hvaða sjálfmynd við höfum á hinum ýmsu sviðum og hlutverkum í lífinu.  Þetta gæti ég gert fyrir öll þau svið sem ég hefi ekki góða sjálfsmynd og ég get gert ýmsilegt fleira til að bæta sjálfsmyndina.  Í rauninni gæti ég skrifað hér heillangt erindi um það hvernig við getum sjálf mótað og breytt eigin sjálfsmynd en ég held að það sé efni í nýjan pistil… sem mun á góðri stundu líta dagsins ljós.

Lokaorðin hér held ég því bara að verði …. komum vel fram við okkur sjálf og sýnum okkur sjálfum bæði kærleika og nærgætni … það mun skila sér í bættri sjálfsmynd, hærra sjálfsáliti og meira sjálfstrausti… og það mun allt saman skila sér í meiri sjálfsvirðingu… sem smitar út frá sér !