Fyrir tveimur árum rakst ég á bók sem heillaði mig upp úr skónum. Þessi bók var gefin út fyrir fagfólk sem vinnur með fólki í því að bæta líðan sína og vinna úr áföllum og erfiðum tilfinningum. Í þessari bók er farið í gegnum stafrófið (á ensku auðvitað) og fundin orð fyrir hvern bókstaf sem hægt er að tengja við eða lýsir sjálfsrækt í einhverju formi og hvernig bæði stórir og smáir hlutir geta hjálpað okkur að takast á við verkefnin sem blasa við okkur í lífinu.

Mig langar að prófa hér – í dag og áfram fram í nóvember – að setja fram og deila svipuðu stafrófi – á íslensku samt – og vona að þið getið notfært ykkur einhverjar af þessum hugmyndum… og ekki hika við að bæta fleirum við og væri ekki leiðinlegt að safna hérna hugmyndum úr öllum áttum 😊

Með hverri færslu ætla ég líka að setja smá upplýsingar um sjálfsrækt almennt og hvað getur verið gott að hafa í huga þegar við hugsum um þetta hugtak – sjálfsrækt.

Vonandi hafið þið eitthvað gagn og gaman af þessu 😊 alla vega hefur þetta verið mér gagnlegt og líka skemmtilegt 😉

A – athygli… það að veita einhverju eða einhverjum óskipta athygli getur verið mjög nærandi fyrir okkur sjálf, þá erum við í rauninni í ákveðnu núvitundarástandi sem er mjög hollt fyrir okkur öll. Athyglinni getur líka verið beint að okkur sjálfum og því sem við erum að gera.

Á – áreynsla… líkamleg áreynsla hefur góð áhrif á og getur dregið úr kvíða og streitu og það eitt og sér er næg ástæða til að stunda ákveðna áreynslu. Það er líka góð leið til útrásar fyrir tilfinningar eins og reiði. Og áhrif áreynslu eru líka líkamleg vellíðan og auðvitað þarf hver og einn að finna áreynslu sem hæfir þeim sjálfum.

B – bækur… lestur góðrar bókar getur haft mikil áhrif á lífsgæði og tilfinningar fólks og eins og með flest annað þá eru til næstum því óteljandi bækur og því auðvelt að finna eitthvað sem getur vakið áhuga og það þarf ekki að lesa alla bókina í einu. Bækur geta verið fræðilegs eðlis og lesnar í þeim tilgangi að öðlast nýja þekkingu og þær geta líka verið lesnar til afþreyingar og hvoru tveggja er bæði gott og gagnlegt.

D – dans… það að dansa, þó ekki sé nema við eitt lag, getur verið mjög góð sjálfsrækt. Og það besta er að það eru til alls konar lög og það getur farið eftir skapi dagsins hvaða lag verður fyrir valinu. Ég vel oft Pál Óskar til að dansa við og er örugglega mjög skemmtileg sjón fyrir nágrannana sem mögulega gætu litið inn um gluggann, því oftar en ekki er ég með tónlistina í eyrunum bara og aðrir heyra ekki 😊 Stundum vel ég líka eitthvað allt annað og ég elska flesta tónlist og svo fer það bara eftir dagsforminu hvað verður fyrir valinu í hvert skiptið.

Læt þetta duga í bili og hlakka til að halda áfram…