Þegar við hugsum um sjálfsrækt þá eru margir sem hugsa um eitthvað stórt og mikið. Eitthvað sem tekur langan tíma og kostar fullt af peningum. Við sjáum endalausar auglýsingar á samfélagsmiðlum, blöðum, tímaritum og bara hvar sem er, um að við eigum skilið að veita okkur hitt og þetta því við séum „þess virði“ og „eigum það skilið“ … og það er alveg rétt, við erum þess virði að við hugsum vel um okkur … en það sem hins vegar vantar stundum er að það þarf ekki endilega að kosta helling eða felast í því að ferðast langar leiðir. Sjálfsrækt er eitthvað sem við eigum og verðum að huga að í daglega lífinu, helst á hverjum degi, og hún er oftar en ekki fólgin í litlu hlutunum og ég vona að ég nái að koma þeim skilaboðum til ykkar með þessum pistlum mínum um sjálfræktina … og endilega deilið hér í kommentum þeim hugmyndum sem koma upp í ykkar huga við lesturinn – það gæti orðið ansi góður hugmyndabanki 😊
Ég ætla að reyna að hafa bara eina hugmynd við hvern bókstaf – svona til að þetta verði ekki heil bók í hvert skiptið – en það tekst samt ekki alveg alltaf og vonandi græðið þið þá bara aðeins meira 😉
Og nú höldum við áfram með stafrófið og erum komin að E…

E – eldamennska… það að elda getur verið einstaklega gefandi og er í sjálfu sér heilmikil sköpun ef við leyfum okkur að hugsa það í stærra samhengi en því að það þurfi jú allir að borða. Að elda góðan mat, prófa nýjar uppskriftir og ekki síst að hafa góðan tíma við eldamennsku getur verið virkilega skemmtileg sjálfsrækt. Stundum langar okkur að elda ein og í friði og stundum langar okkur að hafa annað fólk með okkur.

É – ég sjálf/ur… þegar ég held sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur og konur og við tölum um styrkleikana okkar þá nefni ég sem einn af mínum að ég sé „sjálfselsk“ … ha? er það styrkur? Já, að elska sjálfan sig er styrkur en að vera eigingjarn eða mjög sjálfhverfur er kannski ekki eins jákvætt… stundum felst sjálfsrækt einmitt í því að gefa sér tíma og orku í að hugsa um það hvað það er í mínu eigin fari sem ég elska og þykir vænt um. Við þurfum á því að halda, til að líða vel, að elska okkur sjálf og því miður þá eru alltof margir sem ekki gefa sér leyfi til þess eða finnst þeir ekki eiga það skilið. Þess vegna er stundum gott að við hugsum „ég“
– Hvað þarf ég? Hvað langar mig? Hver er ég? Hvert stefni ég?
Og leyfa okkur svo að elska okkur sjálf.

Ð – þessi þvældist umtalsvert fyrir mér þar sem ekkert orð í íslensku hefst á þessum ágæta staf svo ég svindlaði pínu og hafði „ð“ sem annan stafinn í orðinu… „aðrir“… við þurfum öll á öðrum að halda í lífinu og samvera okkar við aðra er okkur mikilvæg. „Aðrir“ geta verið ótal margir og það getur verið misjafnt nákvæmlega hverja „aðra“ okkur langar að umgangast á hverjum tíma. Stundum eru „aðrir“ vinnufélagar, stundum fjölskyldan eða stundum vinirnir og við höfum öll leyfi til að velja – alla vega að einhverju leyti – hverjir „aðrir“ fá pláss í okkar tíma og orku. Það er líka mikilvægt að við veltum því fyrir okkur og tökum meðvitaðar ákvarðanir um hverjir „aðrir“ fá að hafa áhrif á líf okkar og líðan. Það er liður í sjálfsrækt.

F – faðmlag… það að faðma aðra manneskju hefur í eðli sínu jákvæð áhrif á okkur. Við höfum öll þörf fyrir nærveru og tengsl við annað fólk og faðmlag nærir þennan þátt í okkur. Eitt gott faðmlag við makann, börnin, samstarfsaðila, vini og vinkonur, foreldra, systkini eða hvern þann sem okkur líður vel að faðma ætti því að vera á listanum okkar yfir sjálfsrækt á hverjum degi… og helst oftar en einu sinni á dag.

G – ganga… ég hélt einu sinni að það að fara út að ganga „teldist ekki með“ nema að það næði alla vega 30 mínútum í einu og væri helst kraftganga í hvert skiptið… og það má því rétt ímynda sér hversu mikið mér létti þegar ég komst að því að 10 mínútur á rólegri göngu teljast líka með þegar við erum að tala um sjálfsrækt. Það hjálpar helling ef það er úti undir beru lofti en það má líka ganga inni ef það er ekki hægt að fara út. Það skiptir nefnilega líka máli þó það sé bara í smá stund og líka þó að aðstæðurnar séu ekki alltaf fullkomnar. Allt er eiginlega betra en ekkert þegar við erum að ræða göngu og sjálfsrækt.

H – hér er eiginlega komið að því að ég gat ekki valið eitt atriði til að nefna og það er bara allt í lagi 😊 mér finnst nefnilega svo margt sem tengist sjálfsrækt hefjast á þessum fína bókstaf „H“ en ég valdi nú samt, í fyrsta lagi hugleiðslu og í öðru lagi hlátur.
Hugleiðsla er eitthvað sem margir flækja fyrir sér og halda að það þýði að geta verið með „tóman huga“ í svo og svo langan tíma. Ég hélt það líka og hélt að þetta væri bara fyrir sérþjálfað fólk sem hefði alla sína ævi undirbúið sig en svo komst ég að því að hugleiðsla getur verið eitthvað sem tekur allt frá einni mínútu og upp í margar, margar mínútur… persónulega á ég erfitt með að fara yfir 20 mínútur, en það er líka bara allt í lagi því það skiptir allt máli. Það að ná að setja athygli þína á t.d. andardráttinn þinn, hljóðin í kringum þig, lykt í umhverfi þínu eða það sem þú sérð með því að líta í kringum þig.. og bara í 2 mínútur, getur skipt sköpum um líðan þína allan daginn.
Svo er það hláturinn en það er bara einfaldlega þannig að gamla orðatiltækið „hláturinn lengir lífið“ er svo innilega satt. Það getur verið alveg svakalega gott fyrir sál og líkama að hlægja og ekki verra ef það er gert í hópi góðra vina og vandamanna.

Njótið vel og hafið gaman af … næsti kafli kemur á laugardaginn 😊