Skömmin sem fylgir ofbeldi… áfram halda 16 dagarnir…
Já… það er því miður þannig ennþá… árið 2020… að við erum að tala um skömm þolenda ofbeldis. Við erum ennþá að berjast við þær afleiðingar sem felast í skömminni! Ég veit það hljómar ekki vel… og við eigum auðvitað að vera komin lengra… en staðan er bara samt þannig að margir þolendur kynbundins ofbeldis burðast með mikla skömm! Og skiptir það máli? Já… það skiptir máli… heilmiklu máli… og í því samhengi skulum við aðeins skoða hvað það þýðir að burðast með skömm… því að skömm er ekki það sama og sektarkennd… sektarkennd fylgir því þegar maður hefur gert eittvað sem ekki samræmist eigin gildum og viðhorfum… eitthvað sem maður sér eftir að hafa gert… og sektarkennd í samræmi við gjörðir er í sjálfu sér ekki slæm… hún getur komið í veg fyrir að við segjum og gerum hluti sem við í raun viljum ekki… en skömm… hún tengist ekki því að við sjáum eftir slæmri hegðun… hún tengist ekki eingöngu gjörðum… og oftast tengist hún í raun gjörðum annarra… og hún segir til um ímynd manneskju um sjálfa sig… hún segir til um sjálfsvirði manneskju…
Konur sem búið hafa við heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi eru því miður oft uppfullar af skömm… yfir því að hafa búið við þetta ofbeldi og þær kenna sér um bæði ofbeldið sjálft og jafnvel að hafa ekki farið fyrr… hafa ekki séð merkin… hafa ekki brugðist öðruvísi við… að hafa „valið sér ofbeldismann“ sem maka… skömmin er þess eðlis að hún yfirtekur hugsanir, skoðanir og hegðun þess sem ber hana… hún verður yfirþyrmandi og virðist stundum óyfirstíganleg… og hún gefur enga miskunn… hún tekur sér ekki frí og gefur ekki eftir… ekki nema með mikilli sjálfsvinnu þess sem hana ber… og fyrir þá sem ekki þekkja hana á eigin skinni þá hljómar hún kannski órökrétt… af hverju ætti einhver að bera skömm yfir því að hafa verið beitt ofbeldi?… já það er von að spurt sé… heimilisofbeldi er nefnilega þess eðlis að það smýgur inn „hér og þar“… það felst ekki bara í stórum, afmörkuðum atburðum… heldur felst það svo lymskulega í öllum litlu athugasemdunum… þessum sem brjóta niður sjálfstraustið og sjálfsmyndina… þessum sem hægt er að „efast um“ eftirá… þessum sem gera þolanda stundum erfitt um vik að sjá ofbeldið sem í þeim felst… fyrr en seinna… þegar stóra samhengið er skoðað… og þá hefur skömmin oftar en ekki tekið sér djúpa bólfestu…
Það er líka því miður þannig að við sem samfélag ýtum stundum undir þessa skömm… bæði þegar heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hefur verið beitt… við gerum það ekkert endilega viljandi eða af illsku – alls ekki – heldur einmitt með litlu hlutunum sem við segjum og gerum… með orðræðunni… um það hvernig þolendur „líta út“ – og þá á ég ekki við líkamlegt útlit – … um það hvað konur „eiga“ að gera þegar þær lenda í ofbeldissambandi… með því að segja konum hvaða viðbrögð eru „rétt og rögn“… og hvað er viðeigandi… með því að segja hluti eins og „ef ég myndi…“ og auðvitað viljum við hjálpa og ráðleggja… en við þurfum að gæta vel að orðalaginu og þeim skilaboðum sem við sendum þolendum…
Við ýtum líka undir skömm þolenda þegar ekki er hlustað á frásagnir þolenda… þegar ofbeldismaður kemst upp með ofbeldið vegna þess að „það eru engin vitni“… „engar sannanir“ … „ofbeldið var ekki talið alvarlegt“… „konan fór aftur heim til ofbeldismannsins“… eða hvað annað sem stundum kemur fram í umræðunni, dómum og málaferlum…
Til þess að vinna á skömm þurfum við sem samfélag að vera tilbúin… tilbúin til að horfast í augu við þann sára veruleika að ofbeldi þrífst… tilbúin til að takast á við afleiðingarnar… tilbúin til að veita þolendum það svigrúm sem þær þurfa við úrvinnslu sína – því það getur tekið tíma!… tilbúin til að veita þeim þann stuðning sem þær þurfa – á þeirra forsendum!… tilbúin til að taka í burtu allar staðalmyndir og í alvöru halda áfram að ræða ofbeldi í öllum sínum myndum… baráttan er ekki búin og verður það sennilega aldrei… en við verðum að halda ótrauð áfram og aldrei hætta að skila skömminni þangað sem hún á heima!