Ég veit ekki hvernig það er heima hjá ykkur… en heima hjá mér skapast ákveðið „ástand” á heimilinu yfir sumartímann… Ég er sko í grunninn alveg ótrúlega mikill „snyrtipinni“ (stundum alveg yfir markið sko) og þegar við maðurinn minn byrjuðum að búa gerði hann oft grín að því að það væri ekki hægt að sjá að það væri búið á heimilinu… en ég hef nú slakað töluvert á síðan þá og oftast sést nú bara nokkuð vel að á heimilinu býr fimm manna fjölskylda ásamt gæludýrum… En ég er nú samt frekar mikið í því að vilja hafa hlutina á sínum stöðum og á frekar erfitt með ryk og ekki síst skítug gólf…
Svo kemur sumarið… þið vitið þarna einu sinni á ári eða svo… og þá skapast það sem eiginmaðurinn kallar „sumarástandið”… og þá eru yfirleitt frekar skrautleg gólfin… allir inn og út á tásunum – nú eða á skónum inn og út – og allt verður frekar frjálslegt… maturinn er borðaður hér og þar – úti og inni og alls staðar– og í blíðviðri (að ekki sé nú talað um blíðviðri marga daga í röð) nennir ekki nokkur heimilismeðlimur að standa í tiltekt og þrifum… og þá skapast „sumarástandið“ … heimilismóðurinni til mikillar áskorunar… og þá getur verið nauðsynlegt að spyrja sig hvort er mikilvægara… að njóta blíðunnar og samveru fjölskyldunnar eða halda fja*** gólfunum hreinum?
Ég kemst því miður stundum að þeirri niðurstöðu að gólfin séu mikilvægari … en ég er að læra og held því áfram… svo kannski verða bara skítug gólf og hamingjusöm börn á heimilinu þegar líður að hausti … hvernig hljómar það? Er ekki bara alveg hægt að lifa við skrautleg gólf ef það þýðir meiri samvera og afslöppuð börn?