Fagleg fjarheilbrigðisþjónusta
Það er ekki mjög löng hefð fyrir því á Íslandi að veita fjarmeðferð eða fjarheilbrigðisþjónustu og fyrir marga er þetta „varakostur“. Öðrum finnst þetta spennandi kostur sem gefi nýja möguleika til að vinna með fólki óháð staðsetningu og þar með stækka bæði sitt eigið svæði og auka aðgengi fyrir fólk að faglegri þjónustu óháð staðsetningu. Í raun höfum við líka í þó nokkurn tíma verið með stuðning við fólk óháð staðsetningu t.d. með hjálparsíma Rauða krossins og neyðarsíma Kvennaathvarfsins. Þannig að hugmyndin er ekki alveg ný – meira að segja Freud notaði stundum bréfaskriftir við skjólstæðinga sína 😊 svo að einhver vísir hefur verið að þessu þó að formið, þ.e.a.s. internetið og myndviðtöl, sé nýtt af nálinni. Spurningin sem við kannski stöndum frammi fyrir í dag er sú hvernig við ætlum að gera þetta með öruggum, vönduðum og faglegum hætti fyrir alla, bæði fagfólk og ekki síður fyrir alla þá sem vilja nýta þjónustuna. Í ljósi heimsfaraldurs hefur öll fjarþjónusta aukist frá því um mitt ár 2020 og ég er sannfærð um að þessi nálgun og þessi úrræði eru komin til að vera. Það er svo ábyrgð fagaðila að tryggja gæði og öryggi með sem bestum hætti.
Frá árinu 2013 hefur Hugrekki boðið samtalsmeðferð í gegnum fjarþjónustu og er þar með fyrsta fjarheilbrigðisstarfsstofan á Íslandi. Þegar Hugrekki leit dagsins ljós var ekki gert ráð fyrir slíkum möguleikum t.d. hjá landlækni og því ekki hægt að sækja sérstaklega um fjarheilbrigðisþjónustu á þeim tíma. Það er því óhætt að segja að Hugrekki hafi verið frumkvöðlastarf og við leit að einhverju sambærilegu á sínum tíma var ekkert að finna hérlendis. Síðan hefur sem betur fer margt breyst, sífellt fleiri sjá þennan möguleika og árið 2019 gaf landlæknir út tilmæli um að allir sem ætli að stunda fjarheilbrigðisþjónustu skuli sækja um það sérstaklega. Um slíka þjónustu gilda ákveðnar reglur og miða þær sérstaklega að því að tryggja öryggi samskiptanna og þeirra sem vilja nýta slíka þjónustu. Hugrekki sótti að sjálfsögðu um slíkt leyfi og var meðal fyrstu starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna til að fá það leyfi samþykkt. Ég fagna því innilega hversu langt við höfum komist á þessum árum sem hafa liðið frá stofnun Hugrekkis og hlakka til að halda áfram að þróa og bæta aðgengi fólks að þjónustu minni, óháð staðsetningu. Ég sjálf, Ingibjörg, er klínískur félagsráðgjafi sem veiti samtalsmeðferð á einkastofu og hef gert frá því ég stofnaði Hugrekki. Þegar ég ákvað að gera þennan draum að veruleika fannst mér mikilvægt að afla mér upplýsinga og sækja þjálfun og menntun, til þess að tryggja að þau sem til mín leita fengju bestu mögulegu þjónustu sem völ væri á. Ég ákvað því að sækja mína menntun í fjarmeðferð til Bretlands þar sem ekkert slíkt var í boði á Íslandi. Árið 2014 tók ég því námskeið í „online counselling“ og 2018 lauk ég síðan eins árs klínísku diplomanámi, á framhaldsstigi háskóla, í fjarmeðferð, „diploma in online counselling and psychotherapy“ frá The Academy for Online Therapy. Frá árinu 2018 til 2021 bæði kenndi ég og hannaði námskeið í fjarmeðferð hjá þeim skóla. Einnig kenni ég grunnnámskeið í fjarþjónustu fagaðila í samvinnu við Símenntun Háskólans á Akureyri.
Hverju þarftu að huga að þegar þú nýtir þér fjarviðtöl?
- Gættu þess að vera í öruggu umhverfi – þar sem þér líður vel
- Gættu þess að vera í rólegu umhverfi – það sem engar truflanir eru
- Gættu þess að vera á lokuðu, öruggu (læstu) neti og í góðri nettengingu
- Gættu þess að aðrir hvorki heyri í þér né sjái á skjáinn þinn í tölvunni
- Gættu þess að hafa slökkt á öllum tilkynningum sem gætu „poppað upp“ á skjánum hjá þér
- Gættu þess að hafa slökkt á hringingum og tilkynningum í símanum þínum
- Gættu þess að hljóðið þitt og mynd séu skýr, t.d. getur verið mikilvægt að vera með heyrnatól
- Það getur verið mikilvægt að huga að því tæki sem þú notar, t.d. getur tölva verið betri en sími
- Gættu þess að skrá þig út af öllum reikningum sem þú notar til að nýta þér viðtöl og þjónustu, t.d. að skrá þig út af aðgangi þínum í fjarfundabúnaðinum eftir viðtal, út af tölvupósti sem þú notar til samskipta og þess háttar
- Það er mikilvægt að þú gefir þér tíma fyrir viðtalið til að koma þér vel fyrir og vera tilbúin fyrir samtalið
- Það er líka mikilvægt að þú gefir þér tíma eftir viðtalið til að vinna úr samtalinu og vera tilbúin til að halda áfram með daginn þinn
- Láttu þinn fagaðila endilega vita ef það er eitthvað í hljóðinu eða myndinni sem truflar þig – stundum getur hljóð og mynd „frosið“ og það getur orðið til þess að annað hvort þú eða sá/sú sem þú ert að tala við heyrið ekki eða sjáið hvort annað nógu vel og þá er mikilvægt að láta vita 😊
Af hverju fjarmeðferð? Virkar hún?
Margir velja að nýta sér fjarþjónustu af persónulegum ástæðum og þær geta verið mismunandi:
> það langt að fara til næsta fagaðila
> það er erfitt að komast að heiman, af ýmsum ástæðum
> það veitir öryggi að vera í eigin umhverfi
> það veitir meiri sveigjanleika t.d. varðandi tíma og fjölbreyttari þjónustu
> það er spennandi að prófa nýjar leiðir
Rannsóknum á fjarmeðferð er sífellt að fjölga og í kjölfar Covid-19 má gera ráð fyrir að þeim fjölgi enn frekar á næstu misserum og það verður spennandi að fylgjast með því sem fram mun koma í þeim. Margar rannsóknir benda til þess að meðferð sem veitt er í fjarþjónustu sé jafn góð – og jafnvel stundum betri – en meðferð sem veitt er „á stofu“. Þá hefur, á undanförnum árum, verið aukin áhersla á fjarheilbrigðisþjónustu, einmitt vegna þess að reynsla, þekking og rannsóknir hafa bent til þess að hún geti verið bæði góð og gagnleg. Auðvitað er það svo – rétt eins og með allt annað – að ein leið virkar alls ekki fyrir alla og fyrir suma hentar fjarmeðferð ekki eins vel og meðferð sem veitt er á staðnum og það er ábyrgð fagaðila að vera í samvinnu við sitt fólk um að meta hvernig og hvort fjarþjónusta hentar best eða ekki.
Hér má sjá nokkrar slóðir sem vísa á rannsóknir og gagnlegar upplýsingar um fjarmeðferð:
Relational depth in online therapy; can it be experienced, and what facilitates it and inhibits it?
The Therapeutic Relationship in E-Therapy for Mental Health: A Systematic Review
How well is telespychology working?
Videotherapy and therapeutic alliance in the age of COVID-19
Margar fleiri rannsóknir og heimildir eru til og ég hvet öll þau sem hafa áhuga á að kynna sér það nánar að skoða og leita fyrir sér 😊
Mikilvæg atriði fyrir fagaðila sem vilja bjóða fjarþjónustu
- Þú þarft að hafa þjálfun og þekkingu á fjarmeðferð og hverju þarf að huga að í því samhengi
- Ef þú ert heilbrigðisstarfsmaður er nauðsynlegt að þú hafir leyfi frá Landlækni til fjarheilbrigðisþjónustu
- Þú berð ábyrgð á því að þjónusta þín standist bæði lög, reglugerðir og kröfur um faglega og bestu þjónustu sem völ er á fyrir þitt fólk
- Þú berð ábyrgð á því að nota viðeigandi tækjabúnað og hugbúnað
- Þú berð ábyrgð á því að upplýsa þitt fólk um kosti og galla þjónustunnar og hvernig það getur verið öðruvísi að vera í samtalsmeðferð og ráðgjöf í fjarþjónustu
- Ef þú ætlar að gera fjarþjónustu að þínu sviði er mikilvægt að þú fylgist með bæði rannsóknum og kenningum er varða slíka þjónustu þar sem þróunin er ör á þessum vettvangi 😊
- Inni á heimasíðu ACTO – Association for Counselling & Therapy Online – er hægt að finna gagnlegar upplýsingar og ábendingar varðandi fjarþjónustu fagaðila
- Og síðast en ekki síst berð þú ábyrgð á því að þú sért einnig á öruggu, læstu og góðu neti, sért í öruggu umhverfi og að aðrir hvorki sjái né heyri til þín, sért með slökkt á öllum tilkynningum sem gætu poppað upp á skjáinn – og að öll önnur atriði sem tryggja öruggt umhverfi séu í lagi þín megin
Hugrekki er með námskeið fyrir fagfólk sem vill bjóða sína þjónustu í fjarvinnu þar sem farið er yfir þá grunnþætti sem þar þarf að hafa í huga og ég hvet þig til að nýta þér það – eða aðra þjálfun – til þess að tryggja þínu fólki sem faglegasta meðferð og ráðgjöf.
Ef þú eða þinn vinnustaður hefur áhuga á að fá námskeið um fjarþjónustu þá endilega sendu mér póst á hugrekki@hugrekki.is