Félagsleg þjónusta
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er gerð krafa um að félagsráðgjafi sinni ákveðnum verkefnum sem undir lögin falla – og er það fagnaðarefni að lögin skuli með svo afgerandi hætti fara fram á fagþekkingu til að sinna þessum mikilvæga málaflokki, eða málaflokkum öllu heldur þar sem félagsþjónusta sveitarfélaga spannar mjög vitt svið og krefst þekkingar á ýmsum sviðum.
Ísland er bæði strjálbýlt og samanstendur af mörgum litlum samfélögum. Mörg minni samfélög hafa átt í erfiðleikum með að ráða félagsráðgjafa í fullt starf og því hefur Hugrekki boðið uppá samvinnu við sveitarfélög þar sem félagsráðgjafi Hugrekkis sinnir ákveðnum verkefnum sem heyra undir félagsþjónustu sveitarfélaga. Nú þegar hefur slík samvinna skilað árangri og er hluti af þeirri samvinnu unnin einnig í samvinnu við félagsráðgjafa og aðra fagaðila í fleiri sveitarfélögum – þverfagleg teymisvinna sem eingöngu er framkvæmanleg vegna samstarfsvilja sveitarfélaga og fagaðila og er ég innilega þakklát fyrir að fá að taka þátt í slíkri samvinnu og þróun.
Hugmyndafræði félagsráðgjafa
Félagsráðgjafar vinna ávallt með heildarsýn að leiðarljósi þar sem unnið með einstaklingi í samhengi við umhverfi hans og tengsl við fólk í því umhverfi. Kenningar í félagsráðgjöf og hugmyndafræði í vinnu með einstaklingum geta verið mismunandi og henta mismunandi hópum og markmiðum en oft er stuðst við kenningar um tengslamyndun og samþætta nálgun.
Hjá Hugrekki er fólk t.d. hvatt til að nýta sér styrkleika sína til að taka á vandamálum eða hindrunum í lífi sínu. Slík nálgun félagsráðgjafar byggir á hugmyndafræði um valdeflingu og hjálp til sjálfshjálpar. Þessi nálgun er algeng t.d. í vinnu með þolendum ofbeldis og byggir á því að fólk hafi sjálft þá færni og þekkingu sem til þarf til að takast á við þær aðstæður sem það stendur frammi fyrir og hlutverk félagsráðgjafans er þá að vera stuðningsaðili í því ferli sem framundan er. Það sem hentar einum, hentar þó ekki endilega öðrum og er mikilvægt að finna leiðir sem henta hverjum og einum og verður það hlutverk fagaðila Hugrekkis að vera einstaklingum til stuðnings við að finna sína leið til að vinna sig í gegnum þær hindranir sem hann stendur frammi fyrir, hverjar sem þær eru.