Námskeið & fyrirlestrar

Hér að neðan má sjá lista yfir ýmis námskeið og fyrirlestra sem Hugrekki hefur boðið uppá, bæði á eigin vegum en einnig í samstarfi við aðra aðila.
Þá er hægt að senda fyrirspurnir á hugrekki@hugrekki.is varðandi sérsniðin námskeið því kannski ert þú með frábæra hugmynd sem við getum útfært í sameiningu – sjá einnig hugmyndir neðar á síðunni.
Hægt er að bjóða flest námskeiðin sem fjarnámskeið.

Ofbeldi gegn börnum – 1, 2, 4, eða 8 klst… hvað sem hentar best

Námskeið fyrir fagfólk sem vinnur með börnum – og alla aðra sem vilja fræðast um ofbeldi gegn börnum.

Fjallað er ítarlega um mismunandi birtingarmyndir ofbeldis, einkenni þess og afleiðingar. Farið er yfir tölfræðilegar upplýsingar úr íslensku samfélagi og tilkynningarskyldu fagaðila þegar upp kemur grunur um ofbeldi. Einnig er fjallað um aðferðir til að tala við börn, skoðuð sýnidæmi, hvernig hlusta þarf á börn og mikilvægi þess að hafa skýrt verklag í þessum málum, auk þess sem kynnt eru þau úrræði og þjónusta sem er í boði til að hjálpa.

Mikil áhersla er lögð á virka þáttttöku allra og svigrúm gefið til umræðna og spurninga.

Umsagnir:

 • Finnst það allt áhugavert og skemmtilegar umræður.
 • Að þekkja betur einkenni ofbeldis og geta nýtt mér það í starfi.
 • Opnað augun og styrkt mig.
 • Skyldur mínar, hlutverk og leiðir.
 • Fannst það til fyrirmyndar. Þetta hefur opnað augu mín fyrir þessum málum enn þá betur og gerir mig án efa betri kennara
 • Mjög gott námskeið – fyrirlestrar áhugaverðir og kennari kemur með dæmi og umræður sem eru áhugaverðar. Ég var í Zoom – það gekk mjög vel – ég heyrði vel í bæði fyrirlesara og umræðum sem fram fóru – sá ekki allt á glærunum en það var í góðu lagi – fyrirlesari ætlar að senda þær á þátttakendur. – mjög gott og þarft námskeið sem á eftir að nýtast mér í starfi – takk fyrir mig.

„Mjög gott og þarft námskeið sem á eftir að nýtast mér í starfi – takk fyrir mig“

Þátttakandi á námskeiði um ofbeldi gegn börnum

Heimilisofbeldi & ofbeldi í parasamböndum – 1, 2, 4, eða 8 klst… hvað sem hentar

Námskeið fyrir fagfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu – en einnig fyrir alla aðra sem vilja fræðast um þessi málefni.

Fjallað er um einkenni og afleiðingar heimilisofbeldis og mismunandi birtingamyndir þess. Skoðaðar eru tölulegar upplýsingar um íslenskt samfélag og farið yfir þau úrræði sem í boði eru, fyrir þolendur og gerendur. Þá er fjallað um einkenni og langtímaafleiðingar ofbeldis í æsku. Skoðað er hvernig þarf að hlusta eftir merkjum frá mögulegum þolendum, hvað tekur við ef við höfum grun um heimilisofbeldi, trúnað og skyldu fagaðila til að tilkynna til barnaverndar. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að skima fyrir heimilisofbeldi og leiðir til að framkvæma slíka skimun.

Mikil áhersla er lögð á virka þáttttöku allra og svigrúm gefið til umræðna og spurninga.

Umsagnir:

 • Lærði að nálgast þolendur ofbeldis.
 • Lærði að þekkja einkenni og áhrif ofbeldis og þekkja leiðir til að vinna úr því.
 • Það hefur styrkt mig sem fagaðila.
 • Lært að vera alltaf vakandi fyrir ofbeldi.
 • Fengið ýmis gagnleg „verkfæri“ sem nýtast í starfi.
 • Fannst mjög víðtækt efni og komið inn á það sem ég hafði áhuga á. Frekari leiðir til að takast á við og bregðast við tlkynningum um heimilisofbeldi. Hvernig maður nálgast efnið.

„Fengið ýmis gagnleg „verkfæri“ sem nýtast í starfi“

Umsögn þátttakanda á námskeiði um heimilisofbeldi

Fjarþjónusta fagaðila – þjónusta 21. aldarinnar – 12 klst:
Eingöngu kennt í gegnum Zoom

Markhópur:
Heilbrigðisstarfsfólk og aðrir fagaðilar sem vilja vinna ráðgjöf og meðferð í gegnum fjarþjónustu. Mikilvægt er að þátttakendur hafi lokið viðurkenndu námi í ráðgjafar-  eða meðferðarvinnu (t.d. á sviði félags- eða heilbrigðisvísinda, markþjálfun eða öðru sambærilegu) og hafi reynslu af slíku starfi með skjólstæðingum. Takmarkaður fjöldi.

Markmið námskeiðsins:
Að efla fagaðila, kynna fyrir þeim og veita þeim grunn í því að veita faglega þjónustu í gegnum netið. Námskeiðið er í samvinnu við Símenntun Háskólans á Akureyri og Academy for Online Counselling & Pshycotherapy í Bretlandi (the Academy) www.acadtherapy.online.

Þetta námskeið er hugsað sem grunnur en mikilvægt er að afla sér víðtækrar þjálfunar í fjarvinnu til þess að tryggja bestu mögulegu vinnubrögð/meðferð á hverjum tíma.

Umsagnir:

 • Hve mikilvægt er að gæta fagmennsku þegar kemur að persónuvernd og hve vandrataður er sá vegur í heimi tækninnar.
 • Varpaði skýru ljósi á þá þætti sem huga þarf að í fjarráðgjöf. Helstu þættir sem huga þarf að hjá fagaðila í ráðgjöfinni sjálfri t.d. faglegum ramma almennt bæði í stað og fjarráðgjöf. Gaf einnig innsýn inn í leiðir til að stunda fjarráðgjöf hvaða leiðir eru færar og hverjar ekki í ljósi persónuverndarlaga.
 • Dýrmætt að námskeiðið skyldi hafa farið fram í „fjarbúnaði“ þannig að maður fékk beina reynslu af því að nota slíkan búnað, prófa sig áfram, gera mistök og læra af þeim. Lærdómsríkt að átta sig á þeim fjölmörgu atriðum sem þarf að hafa í huga við að vinna klíníska vinnu gegnum fjarfundabúnað.
 • Mjög gagnlegt og flott námskeið, mér finnst gott að fá innsýn inn í lögin sem heilbrigðisstarfsfólk starfar eftir – gott að vera betur á tánum.
 • Virkilega ánægð með námskeiðið og hefur staðist allar þær væntingar – þú hefur náð að miðla einstaklega vel og er ég öruggari að fara út í fjárþjónustu – opnar nýja sýn á ráðgjöf 🙂 Takk kærlega fyrir mig 🙂
 • Það er þessi fagmennska og persónuverndaráhersla sem stendur upp úr. Það er að ýmsu að huga.

„Það er þessi fagmennska og persónuverndaráhersla sem stendur upp úr. Það er að ýmsu að huga.“

Umsögn þátttakanda á námskeiðinu Fjarþjónusta fagaðila – þjónusta 21. aldarinnar

Stafræn nærvera – 1 klst
Einöngu kennt í gegnum Zoom

Á námskeiðinu er fjallað um það hvernig við tryggjum sem best góða nærveru í fjarþjónustu við viðskiptavini. Hvaða áskoranir fylgja því að samskipti fari fram t.d. í myndsamtali eða símtali og jafnvel með spjallforritum eða tölvupóstum. Við skoðum það hverju þarf að huga að þegar við færum okkur í stafræna miðlun.
Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum verkfæri sem þeir geta nýtt sér til að vera sem best til staðar fyrir sína viðskiptavini þrátt fyrir aðilar séu hver á sínum stað.

Umsagnir:

 • Að mörgu að hyggja, með nándina í gegnum skjáinn, hvernig fólk er stemmt og einnig að vera dugleg að benda fólki á það sem þarf að laga jafnóðum til að samtalið/fjarskiptin fari sem best fram.
 • Voru margir punktar sem maður þarf að hafa í huga áður en maður byrjar að bjóða upp á fjarviðtöl.
 • Mikið af gagnlegum punktum þrátt fyrir einungis 60 mín námskeið.
 • Ýmis smáatriði hvað varðar framkomu og umhverfi í mynd í fjarbúnaði – og eiginlega bara allt sem um var fjallað um, samtölin milli leiðbeinanda og þátttakenda var líka gefandi. Frábær fyrirlesari.
 • Gott að fara yfir helstu atriði og skerpa á vinnulagi þegar veitt er fagleg aðstoð í gegnum netið. Einnig fór hún yfir það hvað þarf að varast…góð áminning.
 • Mjög gott í alla staði.

„Mikið af gagnlegum punktum þrátt fyrir einungis 60 mín námskeið.“

Þátttakandi um námskeiðið Stafræn nærvera

Zoom á 90 mínútum
Eingöngu kennt í gegnum Zoom

Á námskeiðinu eru möguleikar Zoom skoðaðir og hvernig hægt er að nota það til að miðla þekkingu og þjónustu til viðskiptavina og starfsmanna. Þátttakendur fá að spreyta sig á notkun Zoom, eins og hægt er, og kynnt eru þau verkfæri sem Zoom færir starfsmönnum í fjarvinnu.
Markmið námskeiðsins er að gera starfsmönnum kleift að nýta Zoom sem best og veita þeim öryggir í notkun þess í vinnu sinni.

Umsagnir:

 • Fékk yfirsýn yfir þau verkfæri sem Zoom hefur í sínum verkfærakassa.
 • Að vita hvað Zoom hefur upp á að bjóða 🙂
 • Opnar nýja möguleika á samskiptum við okkar viðskiptavini þar sem samkomubann útilokar núverandi (þáverandi) aðferðir við að halda námskeið. Matjurtanámskeið á Zoom er núið 🙂
 • Ég er nýr notandi og finn ekkert sem mætti vera öðruvísi. Þetta var vel gert!

„Fékk yfirsýn yfir þau verkfæri sem Zoom hefur í sínum verkfærakassa.“

Þátttakandi um námskeiðið Zoom á 90 mínútum

Fagleg fjarþjónusta við viðskiptavini – 2 klst
Eingöngu kennt í gegnum Zoom

Á námskeiðinu er fjallað um að hverju þarf að huga varðandi öryggi samskipta og tæknibúnaðar í fjarþjónustu. Þeirri spurningu er velt upp hvaða hugbúnað væri hægt að nota og hvernig og hvaða skrefum er gott að huga að til að hún sé fagleg og vönduð. Þá er skoðað hvaða þjónustu er viðeigandi að bjóða í fjarþjónustu, t.d. út frá persónuverndarsjónarmiði og út frá eðli þjónustunnar.
Markmiðið er að vekja athygli þátttakenda á áskorunum og kostum þess að þjónusta viðskiptavini í fjarvinnu og styrkja þá í því hlutverki, sem flestum hefur verið kastað útí af miklum hraða á þeim tímum sem við nú tökumst á við.

„Stappar í mig stálinu, vil reyna sjálf að veita þjónustu í gegnum netið.“ – „Mjög gott.“

Þátttakendur um námskeiðið Fagleg fjarþjónusta við viðskiptavini á 90 mínútum

Handleiðsla og sjálfsrækt í heimavinnu – 2 klst
Eingöngu kennt í gegnum Zoom

Námskeiðið fjallar um það hvaða atriði við þurfum að hafa í huga þegar við vinnum heima og án þess að hitta samstarfsfélaga og/eða viðskiptavini okkar „á staðnum“. Hvernig er það öðruvísi og hvernig getum við haldið tengingu okkar þrátt fyrir að vera hvert á sínum stað. Hvaða áskoranir fylgja því að vinna allt í fjarvinnu.
Markmið námskeiðsins er að vinna gegn félagslegri einangrun starfsmanna og gefa þeim verkfæri til að halda tengslum við aðra á þessum skrítnu tímum.

„Að skerpa sig í fjarmeðferðarvinnu“

Þátttakandi um námskeiðið handleiðsla og sjálfsrækt í heimavinnu

Foreldrahlutverkið í nútímasamfélagi – 1 klst (eða lengra ef þess er óskað)

Námskeiðið fjallar um samskipti foreldra við börn sín; jákvæð samskipti, skýr skilaboð, hrós, aga og mörk. Einnig fjallað um hvernig við hlustum þannig að börn tali og tölum þannig að börn hlusti, sem og hvaða áhrif samskipti milli foreldra hafa á börnin. Hægt er að aðlaga námskeiðið að þeim hópum sem eftir námskeiðinu óska… bæði fyrir stóra hópa og litla og er ávallt boðið upp á umræður og gott svigrúm til spurninga.

„Segir á mannamáli og skemmtilega frá þessu „hlutverki“ – að vera foreldri“

Þátttakandi á námskeiðinu Foreldrahlutverkið í nútímasamfélagi

Þú og þinn styrkur – helgarnámskeið

Samvinnuverkefni Hugrekkis – ráðgjafar og fræsðlu og Léttari Lausna – samskipta og fjölskylduráðgjafar

Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir 12 ára stelpur þar sem unnið er með styrkleika þeirra og samskipti við sjálfar sig og hverja aðra. Skoðaðir eru þeir þættir sem hafa áhrif á sjálfsmyndina, netnotkun og hvernig samskipti vinkonur vilja eiga. Unnið í verkefnavinnu og leikjum í samvinnu við stelpurnar. Kennarar eru Ingibjörg Þórðardóttir og Sigríður Ásta Hauksdóttir.

Þetta námskeið var hannað og þróað í samvinnu við Soroptimistaklúbb Húsavíkur og nágrennis árið 2017 og er nú orðin fastur liður í starfsemi okkar allra sem að því koma og stelpurnar hlakka til að koma okkar í langan tíma – og fyrir það erum við bæði þakklátar og innilega glaðar. Þetta námskeið er í sífelldri þróun og við Sigga Ásta lærum mikið af þeim í hvert skipti og notum þann lærdóm alltaf til að endurbæta og þróa námskeið. Það er líka gaman að segja frá því að þátttakendur á fyrsta námskeiðinu gáfu námskeiðinu nafn og var lýðræðislega kosið um þau nöfn sem komu fram í hugmyndum frá stelpunum sjálfum.

Þetta námskeið var valið verkefni mánaðarins í janúar 2021 af Evrópusamtökum Soroptimista og við stöllur erum að sjálfsögðu mjög stoltar og ánægðar með þann heiður – og það er okkur líka einstakur heiður að fá það frábæra tækifæri að valdefla stelpur og veita þeim verkfæri til alls kyns lífsleikni.

Nokkrar af mörgum umsögnum stelpnanna um hvað þær lærðu á námskeiðinu:

 • Vinátta er mikilvæg í lífi fólks
 • Ég lærði að elska mig, að vera ánægð með mig.
 • Að við eigum að elska okkur sjálfar
 • Uhmm, ég lærði að elska sjálfa mig og að nota menti.com 🙂 takk fyrir mig.
 • Mjöööööööggg mikið, takk fyrir mig !!! 🙂
 • Að ég er nóg! Og að elska sjálfa mig! Takk kærlega fyrir mig Inga og Sigga, þið eruð bestar.
 • Að elska sjálfa mig og að vera betri vinkona. Takk kærlega fyrir mig.

„Að elska sjálfa mig og að vera betri vinkona“

Umsögn frá 12 ára stelpu á námskeiðinu Þú og þinn styrkur

Hver er sjálfsmyndin þín mín kæra – 10 klst

Takmarkaður fjöldi á hvert námskeið – 8 þátttakendur.

Sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur þar sem unnið er með margar hliðar sjálfsmyndarinnar og hvernig hægt er að hafa sjálf áhrif á hana. Þá er fjallað um hvernig sjálfsmyndin endurspeglast í ákvörðun daglegs lífs og hefur áhrif á samskipti, bæði við sjálfa sig og aðra.

Þetta námskeið skiptist í fjögur skipti þar sem þátttakendur mæta í 2,5 klst í senn. Í hverjum tíma er innlegg frá kennara, unnið er með ýmis konar verkefni og gerðar æfingar. Þátttakendur fá heimaverkefni sem hafa það markmið að tengjast sinni eigin sjálfsmynd – eða sjálfsmyndum – og deila með hópnum eins og hver og ein er tilbúin til.

Unnið er með mörk, traust, samskipti við okkur sjálfar og aðra. Einnig skoðum við hvernig við sjálfar höfum áhrif á okkar eigin sjálfsmyndir og hlutverk í lífinu, hvaða leiðir við getum farið til að kynnast sjálfum okkur, hvaða viðhorf við höfum og skoðanir um okkur sjálfar og umhverfi okkar.

Þátttakendur hingað til hafa verið mjög ánægðar með fyrirkomulag, kennslu, viðmót kennara, efni námskeiðsins og verkefnin. Sérstaklega hefur verið ánægja með fjölbreytni verkefnanna og uppbrot í kennslunni í stað þess að sitja bara og hlusta á fyrirlestra.

Ert þú með góða hugmynd að námkeiði fyrir þig og þinn hóp….

Hægt er að senda fyrirspurnir á hugrekki@hugrekki.is um að fá sérsniðin námskeið og/eða fyrirlestra fyrir hvers kyns hópa – bæði stóra og smáa.  Þau geta til dæmis fjallað um:

 • Sjálfsstyrkingu
 • Sjálfsrækt út frá ýmsum þáttum – bæði í einkalífinu og vinnunni… getur verið tilvalið t.d. fyrir saumaklúbbinn
 • Skipulagstækni og -færni
 • Ofbeldi gegn börnum
 • Heimilisofbeldi
 • Kynferðisofbeldi (t.d. námskeið fyrir unglinga)
 • Samskipti í fjölskyldum
 • Samskipti í samböndum
 • Samskipti í vinahópnum (t.d. námskeið fyrir unglinga)
 • Samskiptafærni út frá allskonar sjónarhornum
 • Virðing og samskipti á vinnustöðum
 • Foreldrafærni
 • Fjarþjónusta ráðgjafar og meðferðarvinnu út frá ýmsum sjónarhornum