Síðustu daga hefur verið mikil umræða um nauðganir í fjölmiðlum. Þessi umræða hefur bæði snúist um einstök mál en einnig um það hvernig umræða um kynferðisbrot hefur opnast á undanförnum misserum, hvernig kerfið tekst á við þessi brot og það hvernig umræðan í sjálfu sér kemur við bæði þolendur og gerendur. Ég ætla ekki að gera öll þessi atriði að umtalsefni hér og nú en það er þó eitt sem mig langar til að taka sérstaklega fyrir hér og læt önnur atriði bíða annarra tíma.
Eitt af því sem talað hefur verið um eru viðbrögð þolenda eftir kynferðisofbeldi og hafa margir þolendur sagt frá reynslu sinni í því tilliti. Þegar kemur að kynferðisofbeldi er mikilvægt að muna einn þátt sem getur skipt sköpum í því hvernig þessi viðbrögð eru. Staðreyndin er sú að oftast er kynferðisofbeldi beitt af einhverjum sem þolandi þekkir, jafnvel mjög vel, og treystir. Þetta í sjálfu sér hefur áhrif á tilfinningar og upplifun þess sem brotið beinist gegn. Þegar þú ert beitt/beittur ofbeldi af manneskju sem þú þekkir er það líka staðreynd að það er líklegt að þú leitir skýringa á því hvernig þetta gat gerst. Hvernig gat það gerst að vinur minn sem ég hef treyst fyrir sjálfri/sjálfum mér tekur þá ákvörðun að nauðga mér? Er eðlilegt að mér líði svona eftir „kynlíf“ með kærastanum? Þetta eru spurningar sem eru algengar hjá þeim sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi af t.d. vini eða kærasta. Svörin sem þolendur svara sjálfum sér liggja því miður ótrúlega oft í viðhorfum og viðbrögðum annarra… „ég hlýt að hafa gert eitthvað rangt“ .. „ég hlýt að vera að misskilja þetta eitthvað.. eða ímynda mér eitthvað“. Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir þolendur? Hvaða áhrif hefur þetta á samskipti þeirra við gerendur eftir að ofbeldi hefur verið beitt? Þetta hefur nákvæmlega þau áhrif að þolandi hefur ekki hugmynd um hvernig hann á að koma fram, hvort hann á að breyta hegðun sinni frá því sem var áður eða hvort hann þarf einfaldlega bara að lifa við þetta nýja „ástand“. Þegar svo samfélagið sendir þau skilaboð að þú hafir jafnvel eitthvað gert til að „bjóða hættunni heim“ þá ýtir það enn undir óöryggi þitt í kjölfar þessara alvarlegu glæpa. Og við skulum ekki gleyma að samkvæmt lögum er nauðgun einn alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja og það ber að hafa í huga þegar hlustað er á reynslu þeirra sem slíku ofbeldi hafa verið beittir. Það að halda áfram að tala við þann sem nauðgar þér, segir ekki að þér hafi ekki verið nauðgað. Það segir einfaldlega ekkert annað en að þú ert að reyna að lifa af í skelfilegum aðstæðum. Skelfilegum aðstæðum sem á sama tíma hljóma svo fáránlegar því að sá/sú sem nauðgaði þér er líka besti vinur þinn.. eða vinkona.. eða kærasti/kærasta. Og jafnvel þó að samfélagið reyni stundum að segja þolendum annað þá hefur nauðgun ekkert með þig að gera heldur þann sem nauðgaði. Ég einfaldlega trúi því ekki að árið 2015 séum við ekki búin að læra meira um kynferðisofbeldi en það að við hlustum á þau rök manna að af því þolandi hélt áfram að tala við geranda þá hljóti hann að segja ósatt. Ég trúi því að við veljum að hlusta á þá sem þekkingu hafa á þessum málum og tökum mið af því í stað þess að hlusta á innantóm rök þeirra sem ekki hafa þekkinguna.