Nú líður að hausti og þá styttist í að flest íslensk börn fari í skólann … það þýðir líka að ég fæ að verja tíma með starfsfólki ýmissa skóla til að fræða hópinn á hverjum stað um birtingarmyndir, einkenni og afleiðingar ofbeldis gegn börnum og þessa vikuna hef ég fengið að fara í þrjá leikskóla, einn grunnskóla og – í fyrsta skiptið – í einn framhaldsskóla! Þetta hefur því verið mikilvæg og frábær vika… hátt í 100 manns sem tóku þetta samtal með mér – takk!

Þetta er eitt af því mikilvægasta sem ég fæ að gera í minni vinnu og ég er í hvert einasta skipti svo innilega þakklát fyrir að fá að koma og ræða þessi erfiðu mál við starfsfólkið sem sinnir, hugar að, kennir og hlúir að íslenskum börnum og er til staðar fyrir þau. Það er gríðarlega mikilvægt að fræða starfsfólk skólanna og ræða við það um ofbeldi gegn börnum – veita starfsmönnum þann stuðning og þau verkfæri sem hægt er til að geta tekist á við þessi flóknu mál. Í hvert skipti sem ég fæ þetta tækifæri læri ég líka af þeim sem hlusta og taka þátt og umræðurnar í þessum heimsóknum eru ekki síður mikilvægar heldur en það innlegg sem ég kem með … því að saman vitum við nefnilega heilan helling og með því að taka samtalið getum við verið meðvitaðri, öruggari og auðvitað fróðari.

Mig langar þess vegna að þakka öllum þeim skólum sem ég hef fengið að heimsækja þessa vikuna fyrir samveruna – og ég hlakka til samverunnar með þeim sem ég fæ að heimsækja í næstu viku!

Það finnst engum skemmtilegt að tala um ofbeldi gegn börnum en það er því miður virkilega nauðsynlegt og það þarf ákveðið hugrekki og kjark til að velja það að nota jafnvel marga klukkutíma af starfsdegi til að eiga þetta samtal. Ég fæ stundum – eða mjög oft – spurningu um það hvort mér finnist kannski “ekkert mál” að vera með þessar fræðslur og svarið er “Jú, það er sko alveg mál” … ég set mig klárlega í stellingar og ræði þessi mál af fullri alvöru og einlægni, ég miðla því sem ég kann og veit, hlusta og tek umræður og ábendingar með mér heim… og þegar ég kem heim þá leyfi ég mér algjörlega að “pakka mér saman” hvort sem það er með góðum kaffibolla, göngutúr eða að hlusta á góða tónlist… því ofbeldi gegn börnum er þungt efni og það tekur á… en við sem erum fullorðin verðum samt sem áður að gera það – til þess að við getum verið til staðar fyrir þau börn sem treysta á okkur og þurfa á okkur að halda.