Félagsráðgjöf – heildarsýn

Félagsráðgjafar vinna ávallt með heildarsýn að leiðarljósi þar sem unnið með einstaklingi í samhengi við umhverfi hans og tengsl við fólk í umhverfi hans.  Kenningar í félagsráðgjöf og hugmyndafræði í vinnu með einstaklingum geta verið mismunandi og henta mismunandi hópum og markmiðum en oft er stuðst við kenningar um tengslamyndun og samþætta nálgun. 

Hjá Hugrekki er fólk t.d. hvatt til að nýta sér styrkleika sína til að taka á vandamálum eða hindrunum í lífi sínu og er ég fólki til stuðnings í gegnum það ferli.  Slík nálgun félagsráðgjafar byggir á hugmyndafræði um valdeflingu og hjálp til sjálfshjálpar.  Þessi nálgun er algeng t.d. í vinnu með þolendum ofbeldis og byggir á því að fólk hafi sjálft þá færni og þekkingu sem til þarf til að takast á við þær aðstæður sem það stendur frammi fyrir og hlutverk félagsráðgjafans er þá að vera stuðningsaðili í því ferli sem framundan er.

Ýmsar leiðir eru færar til að vinna með afleiðingar ofbeldis. Það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum og er það hlutverk mitt að vera einstaklingum til stuðnings við að finna sína leið til að vinna sig framhjá þeim hindrunum sem hann stendur frammi fyrir, hvort sem um er að ræða afleiðingar ofbeldis eða annað.