Hugrekki er félagsráðgjafarstofa sem upphaflega bauð eingöngu samtalsmeðferð í gegnum tölvupóst, símaviðtöl og netviðtöl. Á haustdögum 2015 opnaði Hugrekki einnig hefðbundna félagsráðgjafarstofu á Akureyri. Í dag fer öll fjarþjónusta fram í hugbúnaði Köru (www.karaconnect.is), sem hlotið hefur staðfestingu Embætti landlæknis sem viðurkenndur hugbúnaður í fjarheilbrigðisþjónustu. Hugrekki er einkarekin félagsráðgjafarstofa sem býður uppá samtalsmeðferð og alla almenna félagsráðgjöf fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Hugmyndafræði Hugrekkis byggir á kenningum í félagsráðgjöf.
Ráðgjöf og fræðsla
Í vinnu minni, t.d. með þolendum ofbeldis, hefur oft komið fram hversu erfitt skref það er að leita sér aðstoðar eftir að hafa verið beitt/beittur ofbeldi. Gildir þá einu hvort ofbeldið hefur átt sér stað fyrir löngu síðan eða nýlega. Skömm þolenda yfir ofbeldinu er mjög mikil og þeir taka oft á sig ábyrgðina á því og burðast í kjölfarið með ýmis konar afleiðingar tengdum ofbeldinu, oft án þess að gera sér grein fyrir að um afleiðingar sé að ræða. Eitt af því sem hefur vantað til þess að þjónusta betur þolendur og aðstandendur þeirra, er að geta boðið betri þjónustu út á landsbyggðirnar. Þá eru einnig margir sem ekki treysta sér til þess að mæta á ákveðinn stað og hitta manneskju til að ræða við um ofbeldið. Það getur tekið marga langan tíma að taka þetta fyrsta skref í því að takast á við afleiðingarnar og fyrir suma er skrefið einfaldlega of stórt. Hugmyndin að Hugrekki kviknaði í raun í samtölum við þolendur sem sögðu frá því hversu erfitt það hafði verið að leita sér aðstoðar auk þess sem það hefur lengi verið mér ofarlega í huga hversu erfitt getur verið fyrir fólk sem býr í litlum samfélögum að leita sér aðstoðar – hvort sem er vegna ofbeldis eða annarra erfiðleika í lífinu. Þá hefur það einnig oft komið fram í umræðum við aðra sem sinna samtalsmeðferð hve mikil þörf er á aukinni þjónustu við þá sem ekki eiga heimangengt – af ýmsum ástæðum.
Á undanförnum árum hefur þjónusta í gegnum internetið, á ýmsum sviðum, aukist til muna. Erlendis er slíkt meðferðar-, eða ráðgjafarform, kallað „online counseling & psychotherapy“ en það hefur verið að ryðja sér til rúms síðasta áratuginn og hefur aðsókn verið mikil, bæði þegar fólk hefur ekki kost á að sækja þjónustu öðruvísi en einnig vegna þess að þetta form hentar sumum betur en að koma og hitta meðferðaraðila á staðnum. Þá má ekki gleyma því að notkun internetsins er almennt að aukast og sérstaklega yngra fólk velur í ríkara mæli að nýta þjónustu sem boðin er í gegnum internetið. Það má því leiða að því líkur að þessi vettvangur fyrir meðferðarúrræði og ráðgjöf verði nýttur í meiri mæli í framtíðinni en verið hefur hingað til. Hugrekki leitast því við að bjóða þeim þjónustu sem ekki eiga kost á þjónustu í sinni heimabyggð eða ekki treysta sér til þess að fara í viðtöl á staðnum sem og þeim sem frekar kjósa að nýta meðferð með þessum hætti.