TRÚNAÐUR ER GRUNNSKILYRÐI TRAUSTS
Öll vinna með skjólstæðingum byggir á gagnkvæmu trausti. Því er mikilvægt að trúnaður og þagnarskylda við skjólstæðinga sé virtur. Hugrekki mun fara að öllum lögum og reglum um trúnað við þá sem þangað leita. Undantekningar frá trúnaðarskyldu eru ákvæði í barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þá geta tilfelli eins og að öryggi skjólstæðinga eða þriðja aðila sé ógnað leitt til þess að tilkynna þurfi slíkt til viðeigandi yfirvalda. Ávallt er leitast við að allar tilkynningar og undantekningar frá trúnaði séu í samráði við skjólstæðinga.
LÖG SEM KVEÐA Á UM TRÚNAÐ VIÐ SKJÓLSTÆÐINGA
Lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34 /2012
Lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997
Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009
Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr: 77/2000
Ákvæði ofangreindra laga um trúnað eru virt. Hægt er að nálgast lögin á vef Alþingis
ÚR BARNAVERNDARLÖGUM NR. 80/2002
17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.
- Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.
- Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.
- Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
SIÐAREGLUR FÉLAGSRÁÐGJAFA
Í siðareglum félagsráðgjafa er einnig fjallað um trúnaðarskyldur og undantekningar á trúnaði. Siðareglurnar er, í heild sinni, hægt að lesa hér.